Fólksbíll og jeppi skullu saman á Álfhólsvegi í Kópavogi um klukkan 12.40 í dag, með þeim afleiðingum að jeppinn hafnaði á hliðinni.
Varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við mbl.is að ein manneskja hafi verið flutt á slysadeild með minniháttar áverka eftir áreksturinn.
Svo virðist sem jeppinn hafi keyrt aftan á fólksbílinn og oltið á hliðina í kjölfarið.
Lögregla og sjúkraflutningamenn voru ennþá á staðnum þegar þessi frétt var skrifuð. Búast má við töfum á umferð á svæðinu á meðan verið er að flytja bifreiðarnar í burtu, sem eru töluvert skemmdar.