Starfshópur vinnur nú að því að einfalda stofnanakerfi ríkisins. Markmiðið er að auka hagkvæmni og sveigjanleika í þjónustu. Unnið er í samræmi við úttekt Ríkisendurskoðunar frá áramótum 2021/2022.
Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, þegar hann kynnti nýtt fjárlagafrumvarp fyrir árið 2023.
Bjarni hafði áður sagt við mbl.is að aðhald hafi verið aukið í opinberum fjármálum og dregið hafi verið úr útgjaldaáformum í undirbúningi fjárlaganna sökum talsverðrar verðbólgu sem nú mælist.
Að sögn Bjarna eru allt of margar einstaka stofnanir með mjög fáa starfsmenn sem kalla á einstaka þjónustu á borð við rekstur tölvukerfa. Vakti fjármálaráðherra athygli á því að starfsmenn hjá minnstu ríkisstofnuninni væru tveir talsins.
Taldi hann að hægt væri að ná fram meiri hagkvæmni með einföldun og sameiningu og sagði hann mörg vel heppnuð dæmi um slíkt. Sem dæmi hafi sameiningar hjá Skattinum, sýslumönnum og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, skilað miklum árangri.