Búast við 89 milljarða króna halla

Halli ríkissjóðs er áætlaður um 89 milljarða króna fyrir næsta ár í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar, og minnkar því um hundrað milljarða króna frá fjárlögum ársins 2022, þar sem gert var ráð fyrir 186 milljarða króna tapi. Heildarútgjöld ríkissjóðs eru áætluð um 1.296,5 milljarðar á næsta ári, sem er hækkun um 78,5 milljarða frá fjárlögum ársins 2022.

Mesta aukningin í útgjöldum er til félags-, húsnæðis- og tryggingamála og þá hafa framlög til umhverfismála sömuleiðis aukist talsvert frá fyrra ári.

Heilbrigðismál eru þó eftir sem áður langstærsti útgjaldaliðurinn og nema alls tæplega 320 milljörðum króna.

Þetta kom fram í tilkynningu Stjórnarráðsins en í morgun kynnti Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fjárlagafrumvarp fyrir árið 2023. 

Í kynningunni kom fram að tekjur ríkissjóðs hafi aukist umfram áætlanir. Eru tekjur þessa árs nú áætlaðar 80 milljörðum meiri en gert var ráð fyrir við gerð fjárlaga fyrir ári síðan. 

„Kraftmikil einkaneysla“

„Þegar við undir lok síðasta árs samþykktum fjárlög þessa árs, ársins 2022, þá vorum við með hugmyndir um að heildartekjurnar færu í 950 milljarða rúma en það stefnir í að tekjur þessa árs verði yfir þúsund milljarðar og þar leggjast hérna nokkrir hlutir saman til þess að tryggja þá niðurstöðu.

Virðisaukaskatturinn kemur til af mjög kraftmikilli einkaneyslu og fjölda ferðamanna á Íslandi. Atvinnuástandið skiptir verulega miklu máli eins og ég nefndi áðan. Arður og vextir eru líka umfram væntingar,“ segir Bjarni.

„Niðurstaðan er um hundrað milljarða betri afkoma frá fjárlögum þessa árs yfir til næsta árs.“

Skuldahlutfall ekki yfir 50%

Þá hafa skuldahorfur einnig batnað. Í miðjun heimsfaraldri var gert ráð fyrir að hlutfall skulda yrði komið í 50,1% á næsta ári en nú er gert ráð fyrir 33% skuldahlutfalli ríkissjóðs.

„Skuldirnar á þessu ári eru ekki að hækka, það er að segja skuldahlutföllin. Og ég verð að segja að mér finnst skuldahlutfall upp á 33 prósent eftir þessar hamfarir sem hafa dunið hérna á okkur, vera mjög góð niðurstaða og sýnir gríðarlega mikinn styrk ríkisfjármála.“

Fjármálaráðherra kynnir nýja fjárlagafrumvarpið í morgun.
Fjármálaráðherra kynnir nýja fjárlagafrumvarpið í morgun. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert