Líney Sigurðardóttir fékk töluvert betri móttökur á Sjúkrahúsinu á Akureyri í dag, heldur en hún fékk á laugardagskvöldið þegar hún kom þangað með sjúkrabíl, með tvíbrotinn fótlegg, útæld og illa á sig komin af vanlíðan. Enginn á sjúkrahúsinu minntist þó á fyrri heimsóknina við hana og var hún ekki beðin afsökunar á hranalegri framkomu.
Líney sagði í Morgunblaðinu í dag að henni hafi verið fullkomlega ofboðið vegna þeirrar meðferðar og þjónustu sem hún fékk á sjúkrahúsinu. Hún hafi ekki fundið fyrir neinni mannlegri hlýju, heldur hafi hún verið mál sem þurfti að afgreiða og verið send burt samkvæmt vinnureglum. Ekkert tillit virðist hafa verið tekið til ástands hennar og aðstæðna.
Líney segir í samtali við mbl.is að hún hafi fengið mikil viðbrögð við frásögn sinni í Morgunblaðinu. Margir hafi svipaða sögu að segja af þjónustunni á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
„Ég er búin að fá einkaskilaboð frá fólki sem upplifði svipað og jafnvel verra og er bara mjög illa á sig komið andlega eftir þær viðtökur. Það er bara ótrúlega margt fólk sem virðist eiga svipaða upplifun. Það kom mér svolítið á óvart.“
Líney, sem datt illa á laugardaginn þegar hún var að festa barnabarn sitt í bíl, var útskrifuð og send heim af sjúkrahúsinu rétt fyrir miðnætti eftir hafa farið í röntgenmyndatöku og fengið þann úrskurð að hún væri beinbrotin.
Hún reyndi að segja starfsfólkinu að hún byggi á Þórshöfn, sem væri í þriggja tíma akstursfjarlægð, og að maðurinn hennar væri heima með fjögurra ára barnabarn þeirra og kæmist því ekki frá. Var henni þá sagt að taka leigubíl á hótel, en jafnframt að hún þyrfti á þjónustu að halda sem hún yrði að útvega sér sjálf.
„Mín mannlega reisn fauk út í veður og vind. Mér var ekið fram í biðstofuna í hjólastól og ég átti bara að sjá um framhaldið sjálf.“ Líney segist hafa setið í almennu biðstofunni í sundurklipptum buxum og berfætt, ælandi í poka. „Þau höfðu þó fyrir því að segja mér að ég fengi reikning í heimabanka, líklega einhverja tugi þúsunda eftir röntgenmyndirnar og bráðakomu og svo sjúkrabíl,“ bætti hún við.
Líneyju tókst að fá inni hjá ættingjum sínum á Akureyri um nóttina, en fyrir tilviljun voru þau á leið til Þórshafnar daginn eftir. Þegar hún var langt komin til Þórshafnar í gær var svo hringt í hana og henni tjáð að annað brot hefði sést á myndunum og hún þyrfti því að koma aftur í sneiðmyndatöku.
Hún mætti því aftur upp á sjúkrahús klukkan átta í morgun þar sem fótleggurinn var skoðaður betur.
„Það kom í ljós annað brot eða sprunga í hné og ég var útskrifuð eftir þá greiningu. Þetta er þá bæði leggurinn og þetta í hnénu. Nú tekur bara við sex vikna bataferli,“ segir Líney sem er komin með spelku utan um fótinn.
„Þetta var allt annað núna, móttökurnar voru góðar. Þetta voru nokkrar myndatökur og sneiðmynd,“ útskýrir hún.
Þegar mbl.is náði tali af Líneyju var hún komin til vinafólks á Akureyri og var að reyna að ráða framúr því hvernig hún ætti að koma sér heim til Þórshafnar. „Það er næsta skref að finna út úr því, hvort ég verð sótt eða reyni að fljúga í fyrramálið með áætlunarvélinni.“
Líney þarf að láta kíkja aftur á fótinn eftir viku til að kanna hvort beinin séu að gróa rétt saman, en því eftirliti er hægt að sinna á Þórshöfn og er hún fegin því. „Ég leita bara þangað ef eitthvað er. Það voru góð og flott fyrstu viðbrögð frá starfsfólkinu á Þórshöfn.“
Á Sjúkrahúsinu á Akureyri í dag var ekkert minnst á þá gagnrýni sem Líney setti fram á móttökurnar sem hún fékk á laugardagskvöldið. „Það nefndi enginn þetta við mig, en það hafa eflaust allir vitað þetta. Ég hef enga trú á öðru.“
Líney segir ljóst að bæta þurfi samskipti og framkomu í garð sjúklinga. „Það greinilega vantar eitthvað upp á mannlega þáttinn.“