Furða sig á bréfi um vanhæfni bæjarstjóra

Horft yfir Eskifjörð í Fjarðabyggð.
Horft yfir Eskifjörð í Fjarðabyggð. mbl.is/Sigurður Bogi

Fulltrúar Fjarðalista og Framsóknar í bæjarráði Fjarðabyggðar lýstu á fundi bæjarráðs í morgun yfir furðu á erindi frá innviðaráðuneytinu sem barst til sveitarfélagsins. Segir í fundargerð að þar virðist sem frumkvæðisathugun hafi verið boðuð vegna ráðningar bæjarstjóra með hliðsjón af vanhæfni.

Sagði meðal annars í bréfinu frá innviðaráðuneytinu að því hefði borist erindi um afgreiðslu Fjarðabyggðar á ráðningarsamningi bæjarstjóra, „nánar tiltekið því álitamáli hvort kjörnum fulltrúum sé heimilt að taka til máls og greiða atkvæði með ráðningarsamningi sem viðkomandi er aðili að.“

Í fundargerð bæjarráðs Fjarðabyggðar segir aftur á móti að það sé ljóst samkvæmt 20. gr. sveitarstjórnarlaga að vanhæfni myndist ekki þegar verið er að velja fulltrúa til trúnaðarstarfa á vegum sveitarfélagsins. Þá hafi sveitarstjórnarmenn í Fjarðabyggð, líkt og í öðrum sveitarfélögum, stuðst við það í störfum sínum.

Hljóta að taka til skoðunar fleiri sveitarfélög

Þá er bent á að ef innviðaráðuneytið ætli að halda sig við slíka frumkvæðisathugun þá hljóti það að taka til skoðunar afgreiðslu þessara mála hjá fleiri sveitarfélögum þar sem sami háttur hafi verið á. Jafnframt hljóti slík athugun að leiða til endurskoðunar sveitarstjórnarlaganna hvað varðar vanhæfni sveitarstjórnarmanna.

„Vonast áðurnefndir fulltrúar til þess að niðurstaða fáist sem fyrst frá innviðaráðuneytinu þannig að sá sem ábendinguna sendi inn til þess geti verið fullviss um að farið hafi verið eftir lögum við ráðningu bæjarstjóra í Fjarðabyggð. Enda hlýtur það sjónarmið að hafa verið ástæða þess að slík ábending var send frekar en um pólitískan leikþátt hafi verið að ræða,“ segir í fundargerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert