Gætum stöðvað skuldasöfnun á næstu 2-3 árum

Bjarni Benediktsson á fundinum í morgun.
Bjarni Benediktsson á fundinum í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Útlit er fyrir að skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu muni lækka á þessu ári þar sem hagvöxtur hefur verið mjög kröftugur. Þrátt fyrir það stefnir í halla á ríkissjóði og á næsta ári er gert ráð fyrir um 90 milljarða halla. Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, segir að ef vel rætist úr stöðunni gæti hins vegar stefnt í jöfnuð í ríkisfjármálunum á næstu árum.

„Við erum á mjög góðum stað, betri stað en ég óttaðist,“ segir Bjarni um stöðu ríkisfjármála, en í morgun kynnti hann fjárlagafrumvarp næsta árs.

Skuldahlutfall ríkisins stefnir í um 33% og segir Bjarni það vera mjög heilbrigt hlutfall. Segir hann að áform ríkisstjórnarinnar um að stöðva hækkun skuldahlutfallsins hafa gengið vel eftir, en að áfram sé verkefni að finna leiðir til að fjármagna ríkissjóð með öðru en lántöku. Nefnir hann að sjálfur leggi hann mikla áherslu á að ljúka við sölu Íslandsbanka, en heimild fyrir því er nú í fjárlögunum.

Með áætlaðan 90 milljarða halla á næsta ári segir Bjarni að útlit sé fyrir að skuldahlutfallið breytist lítið á næsta ári, en hann er bjartsýnni um árin þar á eftir. „Við erum ekki að fara í afgang á næsta ári eða fullan jöfnuð. Við erum enn að horfa á um 90 milljarða halla, en ef það rætist vel úr stöðunni og kannski aðeins betur, þá verðum við komin í jöfnuð í ríkisfjármálum á mjög skömmum tíma.“

Ertu þá að tala um á næstu 2-3 árum?

„Já,“ svarar Bjarni.

Tengt þessu rifjar Bjarni upp hugmynd sem hann setti fram fyrir nokkrum árum síðan um þjóðarsjóð og segir að skynsamlegt væri að koma á fót slíkum sérstökum efnahagsáfallssjóði sem gæti þá verið notaður þegar stór efnahagsáföll ríða yfir í stað þess að þurfa að skuldsetja ríkissjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert