Gunnhildur Sif Oddsdóttir
Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), segir að við fyrstu sýn blasi það við að í raun og veru við að frekar sé verið að skera niður með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2023 heldur en að byggja upp.
„Við auðvitað hefðum viljað sjá miklu meiri áherslu á að auka tekjur ríkissjóðs til að mæta þessum útgjöldum sem eru núna tímabundin vegna ástandsins,“ segir Kristján í samtali við mbl.is.
Þá nefnir hann að hann hefði viljað sjá hækkun á bankaskatti, möguleg komugjöld á ferðamenn og hækkun á fjármagnstekjusköttum til að draga úr þenslu og úr hallarekstri þannig að í raun og veru væri hægt að halda áfram innviðaframkvæmdum.
Kristján bætir við að hann hefði viljað sjá mikið meiri stuðning við heimilin í landinu á þessum tímapunkti þegar útgjöldin eru að aukast verulega.
„Má þar nefna til dæmis vaxtabótakerfið en það er ekki verið að bæta fjármunum þar inn til að styðja við heimilin þegar vextir eru að hækka. Það er eitthvað sem að ég hefði viljað sjá að yrði gert,“ segir Kristján og bætir við:
„Maður hefði viljað meiri fókus einmitt á þetta að sækja svolítið á tekjuhliðina og halda áfram með nauðsynlegar framkvæmdir í innviðum.“
Kristján segir ASÍ hafa verulega miklar áhyggjur af stöðu heimilanna. „Þegar útgjöld heimila og vextir hafa hækkað jafn snart og raun ber vitni að þá er augljóst að erfiðleikar heimilanna eru að aukast og maður hefði viljað sjá meira þar,“ segir hann að lokum.