„Hér er fólk bara lagt inn af brýnustu nauðsyn“

Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri sjúkrahússins, segir það keppikefli að veita sem …
Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri sjúkrahússins, segir það keppikefli að veita sem besta þjónustu hverju sinni. mbl.is/Margrét Þóra

Forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri segir aðstæður á sjúkrahúsinu þungar og að fólk sé einungis lagt inn ef brýna nauðsyn ber til. Markmið starfsfólksins sé ávallt að koma vel fram við alla skjólstæðinga og veita sem besta þjónustu, en sé einhverju ábótavant í þeim efnum sé nauðsynlegt að samtal eigi sér stað á milli skjólstæðings og stofnunar.

Hvetur hún fólk til að leggja fram formlega kvörtun sé það ósátt við þjónustuna. Þannig sé hægt að skoða hvert mál sérstaklega. 

Líney Sigurðardóttir lýsti í Morgunblaðinu í dag kuldalegum móttökum sem hún fékk á sjúkrahúsinu þegar hún kom þangað með sjúkrabíl á laugardagskvöld, tvífótbrotin, útæld og illa á sig komin af vanlíðan. Líney sagðist ekki hafa fundið fyrir neinni mannlegri hlýju, heldur hafi hún upplifað sig sem mál sem þurfti að afgreiða. Samkvæmt vinnureglum var hún útskrifuð og send heim eftir að hafa farið í röntgenmyndatöku og verið úrskurðuð fótbrotin.

Þar sem Líney býr á Þórshöfn, í þriggja tíma akstursfjarlægð frá Akureyri, var hægara sagt en gert fyrir hana að komast heim. Maðurinn hennar var fastur heima með barnabarn þeirra hjóna og komst því ekki að sækja hana. Hún sagðist ekki hafa fengið að leggjast fyrir þrátt fyrir að hafa óskað eftir því. Mátti hún því sitja á biðstofunni, berfætt, útæld og í sundurklipptum fötum, á meðan hún reyndi að útvega sér gistingu hjá á Akureyri.

Þung staða réttlæti ekki hranalega framkomu

Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, segir í samtali við mbl.is að hún þekki ekki til þessa máls og geti yfir höfuð ekki tjá sig um einstök mál. Miðað við lýsingar myndi hún þó ætla að farið hefði verið eftir klínísku mati sem lá fyrir á þeim tíma.

„Aðstæður á sjúkrahúsinu eru búnar að vera þungar og erfiðar og er hér fólk bara lagt inn af brýnustu nauðsyn. Það er í raun og veru þannig,“ segir Hildigunnur.

„Það er búið að vera mjög þungt hjá okkur. Auðvitað er dagamunur og sumir dagar eru þyngri en aðrir, en gegnumgangandi erum við komin á fulla ferð aftur inn í starfsemina eftir sumarið. Hjólin eru farin að snúast hraðar og það er nóg að gera hvert sem litið er hjá okkur. Það er ávallt verið að leita leiða og það er okkar keppikefli að veita sem besta þjónustu hverju sinni. Ef við förum við eitthvað út af sporinu þar þá er mjög eðlilegt að það samtal eigi sér stað á milli skjólstæðings og stofnunar.“

Hildigunnur segir þunga stöðu hins vegar ekki réttlæta hranalega framkomu í garð skjólstæðinga.

„Það réttlætir ekki að koma ekki fram við skjólstæðinga af fyllstu kurteisi. Það eru hlutir sem við þurfum að skoða. Því við viljum sannarlega gera það. ég treysti ekki öðru en að fólkið hér á sjúkrahúsinu sé að gera það eftir bestu vitund hverju sinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert