Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kom inn á heimili þar sem ætluð fíkniefnasala fór fram á níunda tímanum í gærkvöldi og ræddi þar við húsráðendur.
Á vettvangi var einnig skriðdýr sem er óheimilt að eiga hér á landi. Dýrið var handsamað og fjarlægt af starfsmanni sveitarfélags, að því er segir í dagbók lögreglunnar.
Atvikið átti sér stað í umdæmi lögreglunnar í Grafarvogi, Mosfellsbæ og Árbæ.
Tilkynnt var um innbrot í apótek í miðbæ Reykjavíkur á fimmta tímanum í nótt. Sá sem braust inn komst undan. Ekki er ljóst hve miklar lyfjabirgðir hann hafði með sér.
Skömmu fyrir miðnætti fór lögregla og sjúkralið með forgangi að Kleifarvatni þar sem tilkynnt var um umferðaróhapp. Lögreglan á Suðurnesjum fór einnig á vettvang. Vettvangur óhappsins reyndist vera í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum, sem tók við málinu. Ekki er vitað um slys á fólki.
Laust fyrir klukkan 18 í gærkvöldi var tilkynnt um mann sem hegðaði sér ósæmilega á almannafæri í umdæmi lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti. Lögreglan fór og ræddi við hann. Maðurinn neitaði að gefa upp persónuupplýsingar og var því handtekinn og færður á lögreglustöð þar sem hann gaf þær upp. Honum var sleppt að því loknu.
Tilkynnt var um einstakling sem barði í mannlausar bifreiðar á bifreiðarstæði og olli tjóni á þeim í miðbæ Reykjavíkur. Hann var farinn þegar lögreglan kom á staðinn.