Raunhæft að fækka ríkisstofnunum um þriðjung

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, vill halda áfram að sameina ríkisstofnanir með það að markmiði að einfalda kerfið og ná fram hagræðingu meðal annars þegar kemur að almennri rekstrarþjónustu og tækni- og tölvuþjónustu við stofnanirnar. Þetta sagði Bjarni í kynningu á nýju fjárlagafrumvarpi fyrir komandi ár á fundi í morgun.

Eftir fundinn ræddi Bjarni við mbl.is og fór nánar út í þessar hugmyndir og hvað hann sæi fyrir sér í sameiningarmálum. Rétt er þó að geta að þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Bjarni nefnir sameiningu ríkisstofnana, því það gerði hann líka í mars þegar fjármálaáætlun fyrir næstu fimm ár var kynnt. Þá setti hann fyrir um tveimur mánuðum saman starfshóp sem mun vinn að því að ein­falda stofn­ana­kerfi rík­is­ins. Stefnt er að því að gera það með því að fækka stofn­un­um enn frek­ar og sam­eina aðrar. 

Bæði þá og nú voru ríkisstofnanir samtals 163 talsins, en til viðbótar er 61 sjálfstæð stjórnsýslunefnd. Benti Bjarni á að fámennasta ríkisstofnunin væri með aðeins tvo starfsmenn, en Landspítalinn, sem væri fjölmennasta stofnunin væri með um 6.500 starfsmenn.

Bendir Bjarni á að undanfarið hafi meðal annars Skatturinn og Tollurinn sameinast. Þá hafi Fjármálaeftirlitið farið undir hatt Seðlabankans og Framkvæmdasýsla ríkisins og Ríkiseignir hafi einnig sameinast.

„Enn of mikið af smáum ríkisstofnunum“

En hvað er framundan? „Dómsmálaráðherra hefur verið að boða breytingar hjá sýslumönnum og ég veit að barnamálaráðherra er að athuga hvort hann geti náð meiri samlegð með því að sameina á einn stað alla þá aðila sem eru að vinna að málefnum barna og fjalla um velferð barna. Það er í hverju ráðuneyti eitthvað. Ég veit til dæmis að umhverfisráðuneytið er með mörg slík verkefni í skoðun. Það er víða verið að skoða slík verkefni og það er mikilvægt því það er enn of mikið af smáum ríkisstofnunum,“ segir Bjarni.

Spurður hversu mikið svigrúm hann telji til þess að fækka stofnunum og hvort hann sjái fyrir sér að sú tala gæti farið undir 100 segir Bjarni: „Mér finnst það mjög raunhæft markmið ef það næst einhver kraftur í þá vinnu.“

Fyrr á þessu ári sagði Bjarni að hann hefði lengi verið á þeirri skoðun að lágmarksstærð ætti að vera á stærð ríkisstofnana. Það hefði meðal ann­ars verið eitt af fyrstu mál­um sem hann lagði fram sem þingmaður fyr­ir rúm­um tveim­ur ára­tug­um. Taldi hann þá ekki verjandi að koma á fót ríkisstofnun fyrir fimm eða færri. „Það kann að vera að hægt sé að rétt­læta með tíu manns, en minna en það finnst mér orðið mjög vafa­samt og ætti bara að vera í al­gjör­um und­an­tekn­ing­ar­til­fell­um,“ sagði Bjarni í mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert