Ríkisstjórnin viti ekki hvað hún ætlar að gera

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata og nefndarmaður í fjárlaganefnd Alþingis, segir ljóst af fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2023 að ríkisstjórnin sé ekki búin að ákveða hve miklu eigi að verja í húsnæðismál enda komi það hvergi fram í frumvarpinu.

Hann bendir á að verið sé að hækka Almenna varasjóðinn um miklar fjárhæðir og síðan sé ætlunin að færa úr honum yfir í húsnæðismálin og innflytjendamálin. Þar komi fram að tveir milljarðar eigi að fara í innflytjendamál.

Hins vegar standi ekki hversu mikið eigi að fara í húsnæðismálin „sem er náttúrulega risastór málaflokkur þessa dagana. Þar virðast ráðherrarnir bara benda á hvorn annan,“ segir Björn.

„Mér finnst rosalega spes hvernig er verið að setja fjárhæð inn í Almenna varasjóðinn sem á einhvern veginn að dekka húsnæðis- og flóttamannamál. Ég skil ekki af hverju það er gert. Fjarmálaráðherra útskýrir það einhvern veginn á þann hátt að húsnæðismálaráðherra hafi ekki skilað tillögum en samt segir húsnæðisráðherra að hann hafi skilað tillögum.“

Kaupa sér gálgafrest

Umsagnaraðilar geti þar af leiðandi ekki komið með neinar athugasemdir og þingið þurfi að setja inn upphæð fyrir húsnæðismál byggða á mjög óljósum forsendum.

„Það eina sem það segir mér er að ríkisstjórnin sé einfaldlega ekki búin að komast að niðurstöðu sín á milli og séu að kaupa sér einhvern gálgafrest á því hvaða upphæð þau ætla að semja um.“

„Þau vita ekkert hvað þau ætla að gera í þessu,“ bætir hann við.

Auðvelt að reikna út

Björn Leví bendir á að Sigurður Ingi Jóhansson innviðaráðherra hafi lofað því í byrjun sumars að nú ætti að byggja fullt af íbúðum „og við vitum alveg hvað það kostar, það er rosalega auðvelt að reikna það út, við erum með það í málefnasviðinu húsnæðisstuðning og við vitum alveg hlutdeild ríkisins í því og það er mjög auðvelt að margfalda upp með fjölda íbúða og kostnað á hverja íbúð,“ segir Björn Leví og bendir á að hann hafi sjálfur reiknað þetta í upp í sjö milljarða í byrjun ársins.

„Ef ég get komið og reiknað gróflega þess upphæð, þá ættu þau að geta það. En fyrst að þau geta það ekki þá eru þau ekki sammála um hver upphæðin ætti að vera og við bara skilin eftir í því að klóra okkur í hausnum þangað til þeim dettur í hug að klára það mál sem er ekki alveg ásættanlegt því þau eru að leggja fram fjárlagafrumvarpið núna og það er tímasetningin sem þau eiga að segja frá þessu,“ segir Björn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert