Nadine Guðrún Yaghi, forstöðumaður samskiptasviðs hjá Play, segir í samtali við mbl.is að sala hafi aukist á keyptum flugferðum til London í kjölfar þess að andlát Elísabetar Bretadrottningar var tilkynnt.
„Síðustu fjóra daga hefur salan verið mjög góð til Stansted, bæði frá Bandaríkjunum og frá Íslandi. Við sjáum það sem við köllum „pickup“ í sölunni. Við vitum ekkert hvort það sé út af þessu eða einhverju allt öðru. En það má vel vera að fólk hafi áhuga á því að vera á svæðinu,“ segir Nadine.
Hún segir að mikið af því flugi sem keypt hafi verið sé með stuttum fyrirvara en hún bendir á að hafa verður í huga að það sé algengt að svo sé.
„London er svolítið keypt fyrir næstu daga og vikur,“ segir Nadine.
Nadine segir að aðeins tveir aðilar hafi beðið um endurgreiðslu á flugi hjá Play vegna þess að leikir í ensku deildinni í fótbolta, sem átti að vera um helgina, hafi verið aflýst.
Nadine segir að almennt sé slíkt á ábyrgð viðskiptavina. Það sé hægt að kaupa forfallavernd fyrir hvert flug og einnig sé hægt að breyta dagsetningum gegn gjaldi.
Öllum leikjum í efstu deild karla sem áttu að vera spilaðir um helgina á Englandi var frestað vegna þjóðarsorgar í kjölfar andláts drottningarinnar.