Tekjur 79 milljörðum meiri en áætlað var í fjárlögum 2022

Bjarni Benediktsson kynnir fjárlagafrumvarpið í morgun.
Bjarni Benediktsson kynnir fjárlagafrumvarpið í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2023 eru tekjur ríkissjóðs áætlaðar 79 milljörðum krónum meiri en var áætlað í fjárlögum 2022. Þetta kemur fram í nýju fjárlagafrumvarpi sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti í morgun.

Fram kemur í tilkynningu að tekjur ríkissjóðs aukist mikið milli ára. Það skýrist ekki síst af jákvæðri efnahagsþróun, minna atvinnuleysi og fyrirhuguðum aðgerðum til að draga úr þenslu og verðbólgu. Aukningin birtist m.a. í virðisaukaskatti, fjármagnstekjuskatti, tekjuskatti einstaklinga og tryggingagjaldi.

„Stærsta verkefnið á tekjuhlið ríkissjóðs á komandi árum er heildarendurskoðun gjaldtöku af ökutækjum og eldsneyti. Samhliða miklum árangri í orkuskiptum fólksbílaflotans og sífellt sparneytnari bílum í umferð hafa tekjur ríkisins af ökutækjum og eldsneyti dregist verulega saman. Við því þarf að bregðast með nýjum lausnum, svo áfram megi standa undir öflugu viðhaldi og uppbyggingu í samgöngukerfinu,“ segir í tilkynningunni.

Fram kemur að sístækkandi hópur bíleigenda greiði mjög lítið fyrir notkun vegakerfisins þar sem tekjur ríkissjóðs af vistvænum bílum séu afar takmarkaðar.

Stefnt er að því að fyrirkomulag gjaldtöku miðist í auknum mæli við notkun, en breytingum á bifreiðagjaldi, vörugjaldi og losunarmörkum á næsta ári er ætlað að marka fyrstu skrefin að nýju kerfi.

Vinna gegn þenslu og verðbólgu

Gert er ráð fyrir hóflegum útgjaldavexti á næsta ári. Hagvöxtur verður nýttur til að styrkja fjárhagsstöðu ríkissjóðs og unnið gegn þenslu og verðbólgu. Heildarútgjöld ríkissjóðs eru áætluð um 1.296,5 milljarðar á árinu 2023, sem er hækkun um 78,5 milljarða frá fjárlögum fyrra árs, segir einnig í tilkynningunni.

Aukningin er mest til félags-, húsnæðis- og tryggingamála, en heilbrigðismál eru eftir sem fyrr langstærsti útgjaldaliðurinn. Nema þau tæplega 320 milljörðum króna. Framlög til umhverfismála aukast sömuleiðis talsvert frá fyrra ári, m.a. vegna bindingar og samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda og aðgerða til að bæta ástand áfangastaða innan náttúruverndarsvæða.

Aukinn kaupmáttur

Einnig er bent á í tilkynningunni að kaupmáttur hafi aldrei verið meiri og tekjur á mann aukist um 60 þúsund krónur umfram verðbólgu frá árinu 2016.

„Kaupmátturinn hefur því vaxið um 22% á tímabilinu og hefur þessi lífsgæðaaukning verið varin þrátt fyrir hækkun verðbólgu. Kaupmáttur fullvinnandi láglaunafólks hefur aukist meira en hálaunafólks á tímabilinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert