Topplagið þarf að sýna aðhald varðandi launakjör

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, segir að uppi séu góðar aðstæður í hagkerfinu til að verja þá kaupmáttaraukningu sem verið hefur verið hér á landi undanfarin ár. Þá segir hann ríkisfjármálin leggja góðan grunn að kjarasamningagerð, en að passa þurfi að semja ekki um tómar launahækkanir umfram verðbólgu, heldur að horfa til þess að koma niður verðbólgu. Þá segir hann topplagið á vinnumarkaði þurfa að sýna aðhald í sínum launakjörum.

Ef vel tekst næst verðbólgan niður

Bjarni kynnti fjárlagafrumvarp komandi árs á fundi í morgun og sagði hann við mbl.is eftir fundinn að fínar aðstæður væru til að verja sterka stöðu sem hefði byggst upp á undanförnum árum. Þá væri ríkisstjórnin með nokkur lykilmál í farvegi, eins og húsnæðismálin, og að ekkert væri því til fyrirstöðu að menn settust niður og gerðu samninga sem töluðu inn í þá mynd. „Og ef það tekst vel munum við ná verðbólgunni niður,“ bætti Bjarni við.

Spurður hvað hann eigi við með þeim orðum og hvort launaliðurinn þurfi þá að vera undir verðbólgunni segir Bjarni: „Mér finnst alveg augljóst að það getur gerst hjá ákveðnum hópum, sérstaklega tekjuháum hópum sem hafa notið mikilla kaupmáttaraukninga að það komi eitthvað hik í vöxt kaupmáttar. Mér finnst það ekkert óeðlilegt og það er að gerast um alla Evrópu. Okkar áhersla hefur verið að verja tekjulægri hópana og við vonumst til að það geti allt saman gengið eftir og það er það sem við erum að gera í almannatryggingakerfinu, sérstökum barnabótaauka og breytingum á barnabótakerfinu sem við ætlum að kynna í haust. Sama gildir um aðgerðir í húsnæðismálunum.“

„Menn verða að skynja þá stöðu sem er uppi

Segir hann jafnframt óskynsamlegt að setja fram væntingar um að allir, sérstaklega tekjuháir, muni sjá áframhaldandi kaupmáttaraukningu á komandi misserum. „Það væri mjög óskynsamlegt að hafa væntingar um það.“ Bætti hann við þeir væru að beina sjónum sínum að röngum hlutum sem leggðu alla áherslu á slíkar hækkanir og að á endanum þá myndu þeir sitja uppi með langvarandi verðbólgu með tilheyrandi tjóni. „Það sem skiptir máli núna er að ná verðbólgunni niður.“

Bjarni segir jafnframt að ábyrgðin varðandi launaþróun þurfi ekki síst að koma frá topplaginu og að stjórnir fyrirtækja þurfi að setja gott fordæmi þar varðandi ákvörðun eigin launakjara. „Það er ekki spurning. Menn verða að skynja þá stöðu sem er uppi og haga sér í samræmi við það. Þeir sem ekki gera það geta valdið miklu tjóni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert