„Verið að kroppa upphæðir frá almenningi“

Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Staðan er kannski sú að það hefur ekkert í raun breyst frá því í vor í fyrri áætlun stjórnvalda,“ segir Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður í Fjárlaganefnd, um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2023 sem Bjarni Benediktsson, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, kynnti í morgun.

„Ef við skoðum þessar aðhaldsaðgerðir sem þau eru að boða út af verðbólgu þá felast þær í raun í því að það er verið að kroppa upphæðir frá almenningi með flötum sköttum, flötum krónutöluhækkunum og sértækum gjaldabreytingum,“ segir Kristrún.

Hún bendir á að aðhaldsaðgerðirnar snerti alla jafnt og þá hlutfallega þau sem eru á lægstu tekjunum hæst því hækkanir séu flatar. Þá séu engar aðrar aðgerðir á tekjuhliðinni sem taki mið af ástandinu og enginn hvalrekaskattur af neinu tagi sem taki til að mynda mið af stórauknum fjármagnstekjum.

„Við sáum mestu aukningu í fjármagnstekjum milli ára síðan 2007 í fyrra og það er ekkert talað um neinn hvalreka þar eða viðbót eða langtímabreytingar. Það er ekkert verið að taka mið af til dæmis álagi á stórútgerðina vegna hækkunar á verðmæti sjávarafurða sem við sáum í kjölfar stríðsins, þrátt fyrir í rauninni að efnahagsþrengingar sem að venjulegt fólk á Íslandi er að lenda í dag séu meðal annars út af þessu ástandi,“ segir Kristrún.

Hún bætir við að ekki sé rætt um álögur á bankann í frumvarpinu né neina af þeim atvinnugreinum sem hafa séð einhvern hvalreka. Þess í stað sé farið í „smá kropp á almenning“.

Þvert á alla hagstjórnarráðgjöf

„Á gjaldahliðinni er þetta áframhaldandi aðhaldskrafa þar sem að við erum að sjá fimm milljarða í aðhald og viðbótarniðurskurð í rekstri og á sama tíma er verið að boða tíu milljarða lækkun í fjárfestingu miðað við það sem miðað var við upphaflega og þetta er í rauninni þvert á alla hagsstjórnarráðgjöf, bæði frá alþjóðlegum stofnuðum og frá Fjármálaráði,“ segir Kristrún og bætir við:

„Ríkið á að halda dampi í innviðafjárfestingum óháð efnahagsástandi, því þetta snýst um að viðhalda byggingagetu í landinu, þannig að þetta er líka alvarleg þróun að mínu mati.“

„Þetta var það sem að þau boðuðu í vor í fjármálaætlun, maður hélt kannski að þau myndu hlusta á ráðgjöf og taka mið af því en það hefur í rauninni ekkert breyst, svo erum við með ákveðna málaflokka sem að hafa líka ekki séð neina breytingu þrátt fyrir breyttar aðstæður,“ bætir hún við.

Kristrún bendir á að það sé í rauninni óbreytt framlag til sjúkrahúsþjónustu í frumvarpinu. Þar sé talað um 1% raunvöxt þrátt fyrir að Landspítalinn hafi talað um að það þurfi 2,5% og þrátt fyrir aðstæður á bráðamóttöku og víða annars staðar á sjúkrahúsinu í landinu.

Almenningur borgi beint úr eigin vasa

Auk þess sé ekkert viðbótarfjármagn til að semja við sérfræðilækna, sjúkratryggingar hafi því ekki svigrúm í rauninni til að semja við sérfræðilækna miðað við frumvarpið eins og það er núna „og við vitum að þetta mun bara leið til aukins kostnaður fyrir almenning því það borgar þetta beint úr eigin vasa,“ segir Kristrún.

Hún bendir þar að auki á að stofnframlög til uppbyggingar lækki um tvo milljarða á næsta ári samkvæmt frumvarpinu, þrátt fyrir fyrirheit um húsnæðisuppbygginu. Þá sé í rauninni ekki búið að eyrnamerkja neina viðbótarfjárheimild fyrir húsnæðismál fyrir næsta ár.

„Þannig að Húsnæðismálastofnun og aðilar sem eru að standa í opinberri uppbyggingu þau renna alveg blint í sjóinn hvað þetta varðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert