Slökkvilið Akureyrar hefur í dag verið önnum kafið við reykköfunaræfingar í Vaðlaheiðargöngum en göngunum var lokað milli 10.00 og 15.00 í dag vegna þessa.
Að sögn Ólafs Stefánssonar, slökkviliðsstjóra á Akureyri, var slysavettvangur settur upp í miðjum göngunum. Þar voru ónýtir bílar og voru gasbrennarar notaðir til að líkja eftir því að kviknað hefði í bílunum. Ólafur bendir þó á að ekki hafi verið kveikt í neinu og engin heilsuspillandi efni brennd.
Auk gasbrennaranna sem notaðir voru til að kveikja eldinn var stuðst við tólf reykvélar sem fylltu göngin af sviðsreyk þannig að aðstæður yrðu sem raunverulegastar fyrir slökkviliðsmennina sem væru að kljást við útkallið.
Þá fóru tveir bílar inn í göngin, einn frá hvorum enda, og fóru þeir þar á tvo til þrjá staði þar sem fólki, eða dúkkum í þessu tilfelli, var bjargað úr bílunum. Þeir óku svo sjúkrabílum inn í göngin og fluttu dúkkurnar út.
„Svo þegar við vorum orðnir sáttir þá sögðum við stopp og þá fóru allir á upphafsstaði,“ segir Ólafur en reykköfunaræfingin fór fram þrisvar sinnum í dag.
„Þetta er svona eins og taka upp bíómynd,“ segir Ólafur en hann bendir þó á að í þessu tilfelli sé skipt út áhöfn á bílunum því reynt er að gefa sem flestu starfsfólki tækifæri á að æfa sig.
Ólafur segir það skyldu samkvæmt reglugerð að æfa viðbrögð við eldi í jarðgöngum á fjögurra ára fresti. Ein lítil æfing hafi verið tekin áður en göngin opnuðu og var því að sögn Ólafs kominn tími á betri æfingu.
„Við gerum þetta í samstarfi við Vegagerðina sem skaffar okkur allan þennan æfingabúnað og þetta er fyrsta æfingin sem haldin er með þessum búnaði og planið er semsagt að halda svona æfingar alls staðar á landinu í öllum göngum á næstu árum,“ segir Ólafur.
Þá fara starfsmenn frá Slökkviliði Akureyrar á staðina og setja upp æfingar fyrir viðkomandi slökkvilið með búnaðinum.