Töluvert vatnstjón varð í raðhúsi í Vesturbænum í Reykjavík eftir að gleymdist að skrúfa fyrir vatn sem rann í baðkar í hádeginu í gær.
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu mætti á staðinn um hálfáttaleytið í gærkvöldi og þá hafði vatn flætt um húsið í um sex klukkutíma.
Að sögn varðstjóra varð tjónið þó nokkurt en slökkviliðið var að störfum í hátt í klukkutíma.
Minniháttar eldar urðu í tveimur strætóskýlum í Hafnarfirði og Breiðholti í nótt. Grunur leikur á um að kveikt hafi verið í plasti í skýlunum. Skýlin eru ekki ónýt en hugsanlega þarf að skipta um rúðu í þeim, að sögn varðstjóra.
Mikið var einnig að gera í sjúkraflutningum og voru þeir 122 talsins síðasta sólarhringinn.