Misskilin fortíðarþrá, andlát Elísabetar drottningar, stríðið í Úkraínu, stafræni aðstoðarmaðurinn Siri og íslenska tungumálið komu meðal annars við sögu þegar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, setti Alþingi fyrr í dag.
„Sterkt þing staðnar ekki, festist ekki í viðjum vanans. Eða eru breytingar kannski til óþurftar? Fortíðarþrár gætir stundum í hugum fólks, jafnvel helst þegar aldurinn færist yfir. Um það get ég sjálfur vitnað,“ sagði forsetinn sem virtist þó ekki svo hrifinn af þeirri fortíðarþrá sem hann vitnar í.
„Fortíðarþrá getur villt okkur sýn, búið til falska mynd, falskar minningar. Sögulegt minni má hins vegar hvetja okkur til dáða, lífga liðna tíð og halda því til haga sem fólk vildi eða vill þótt sitthvað hafi ekki gengið eins og vonir stóðu til. Kannski horfðu einhverjir landsmanna á Verbúðarþættina vinsælu með þeim gleraugum síðasta vetur.“
Þá minntist forsetinn einnig á að nú væri hálf öld liðin frá útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 50 sjómílur og að á næsta ári yrði jafnframt hálf öld liðin frá upphafi eldgossins í Vestmannaeyjum.
Sagði hann þær miklu hamfarir minna okkur á þau óblíðu náttúruöfl sem finnast hér á landi en einnig á þann samtakamátt sem við búum yfir þegar á þarf að halda.
Forsetinn beindi sjónum sínum einnig að mikilvægi íslenskunnar og hlutverki hennar í sjálfstæðisbaráttunni og í stafrænu umhverfi nútímans.
„Við áttum okkar fornrit á eigin máli, guðsorð og lögbækur, annála, rímur og ýmislegt annað. En allt er í heiminum hverfult. Nú er það svo að Siri í snjallheimum kann ekki íslensku. Embla okkar er að læra en við verðum fyrir alla muni að tryggja sess íslenskrar tungu í stafrænum heimi.“
Forsetinn taldi þó mikilvægt að sýna umburðarlyndi gagnvart þeim sem hingað flytja og vilja læra málið en ná því ekki á svipstundu og þurfa aðstoð.
„Íslenska er okkar mál og lýðveldið Ísland er traust ríki. En auðvitað er margt sem við getum gert enn betur hér, bætt hag og heilsu fólksins í landinu. Það hlýtur að vera meginmarkmið ykkar, ágætu alþingismenn. Það hlýtur að einkenna gott og öflugt Alþingi. Gleymum því þó ekki sem hér hefur áunnist og um víða veröld.
Gleymum því ekki að lífslíkur og lífsgæði hafa aukist, frelsi og mannréttindi sömuleiðis. Gleymum því ekki að ný tækni og vísindi geta áfram veitt svör við mörgum vanda, loftslagsvá, farsóttum og öðrum áskorunum. Heimur batnandi fer.“