Öll starfsemi Icelandair í 5.200 fermetra í Hafnarfirði

Ein skóflan vakti töluverða athygli en hún er gerð úr …
Ein skóflan vakti töluverða athygli en hún er gerð úr flugvélaíhlutum og er sjálft blaðið gert úr títaníum. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrsta skóflustunga að nýjum höfuðstöðvum Icelandair í Hafnarfirði var tekin í dag. Húsnæðið, sem verður 5.200 fermetra að stærð, mun tengjast núverandi húsnæði félagsins sem hýsir þjálfunarsetur og tæknideild.

Stefnt er að því að öll starfsemi félagsins á höfuðborgarsvæðinu, önnur en flugvallarstarfsemi, verði flutt að nýju höfuðstöðvunum fyrir árslok 2024.  

Margir voru samankomnir í dag til að fylgjast með athöfninni, en á meðan að á henni stóð flaug fyrsta rafdrifna flugvélin á Íslandi, tveggja sæta af gerðinni Pipistrel, yfir viðstadda.

Starfsfólk félagsins tók fyrstu skóflustungu og vakti ein skóflan mikla athygli sökum sérkennilegs útlits hennar, en hún er gerð úr flugvélaíhlutum þar sem sjálft blaðið er gert úr títaníum. 

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, tekur til máls.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, tekur til máls. mbl.is/Árni Sæberg

Þáttaskil í sögu félagsins

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir í samtali við mbl.is að dagurinn í dag marki ákveðin þáttaskil í sögu félagsins, en höfuðstöðvar félagsins hafa fram að þessu verið í Vatnsmýri í Reykjavík.

„Við vorum að taka fyrstu skóflustungu á nýjum höfuðstöðvum félagsins en félagið á náttúrulega langa sögu í Vatnsmýrinni. Félagið flutti þangað á sjöunda áratugnum og þar hafa margar frábærar hugmyndir fæðst sem og okkar viðskiptalíkön og leiðarkerfi hafa verið þróuð þar.

En núna erum við að horfa til framtíðar, en við erum að færa alla skrifstofustarfsemi félagsins á höfuðborgarsvæðinu undir eitt þak hér í Hafnarfirði,“ segir hann.

Svona munu höfuðstöðvar Icelandair í Hafnarfirði líta út við árslok …
Svona munu höfuðstöðvar Icelandair í Hafnarfirði líta út við árslok 2024, þegar öll starfsemi félagsins á höfuðborgarsvæðinu flyst þangað. Ljósmynd/Nordic Office of Architecture

Hjarta félagsins í Hafnarfirði

„Við höfum verið með aðstöðu hér síðan 2014. En fyrir árslok 2024 mun öll starfsemin á höfuðborgarsvæðinu flytja hingað, þ.e.a.s. öll starfsemi sem ekki fer fram á eða við flugvöllunum og út á landi. Þannig að það er mikið hagræði í því að hafa alla á sama stað og þá sérstaklega að vera nær Keflavíkurflugvelli.

Aðspurður snýst ákvörðunin ekki einungis um hagræði.

„Þetta snýst líka um það að við getum núna hannað húsnæðið að nýjustu þörfum fyrirtækja og starfsfólks, en það hefur ýmislegt breyst á síðustu árum hvað það varðar. Til dæmis er þörf á meiri sveigjanleika sem og að það er meiri áhersla á rými fyrir teymisvinnu og þess háttar. Þannig að við erum að sjálfsögðu að horfa til þess núna í þessari nýbyggingu.“

Bogi segir að með nýjum höfuðstöðvum sé félagið auk þess að búa til sameiginlegan viðverustað fyrir starfsmenn félagsins.

„Megináherslan sem við ætlum að leggja á núna er að hér viljum við búa til ákveðið hjarta þar sem allraflestir starfsmenn koma inn á, hvort sem að það sé skrifstofufólk eða flugfólk, þannig að hér hittast sem flestir starfsmenn félagsins. Þetta hefur verið svolítið aðskilið hjá okkur í gegnum tíðina og við sjáum veruleg tækifæri í því að ná fólki betur saman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert