Lögreglumenn fundu við eftirlit kannabislykt frá íbúð í hverfi 220 í Hafnarfirði klukkan átta í gærkvöldi.
Eftir nokkra rannsóknarvinnu lögreglumanna fundu þeir kannabisræktun og tilbúin efni í íbúðinni. Einn einstaklingur er grunaður í málinu og náði lögreglan tali af honum, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Ölvaður maður var handtekinn um sexleytið í gær eftir að hafa ítrekað hunsað fyrirmæli lögreglu.
Fyrst voru höfð afskipti af honum fyrir hádegi þar sem maðurinn reyndi að komast inn í hús þar sem hann átti ekki erindi. Íbúar hússins hringdu í lögreglu og vildu losna við manninn. Lögreglan vísaði honum ítrekað í burtu en alltaf sneri hann aftur. Hann var handtekinn sökum ástands síns og fékk að sofa úr sér vímuna í fangaklefa.
Á sjötta tímanum í gær var tilkynnt um umferðaróhapp í umdæmi lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti. Ekið var á ungmenni á rafmagnshlaupahjóli á gangbraut. Slysið virtist vera minniháttar og ungmennið lítið slasað. Það fór í fylgd fjölskyldu á bráðamóttöku.
Upp úr klukkan hálftvö í nótt var tilkynnt um æstan mann á hóteli sem hafði veist að starfsmanni. Maðurinn, sem var í annarlegu ástandi, var handtekinn á vettvangi. Hann var með töluvert magn fíkniefna ásamt fjármunum í fórum sínum. Maðurinn var vistaður í fangaklefa.
Um sjöleytið í gærkvöldi var tilkynnt um þjófnað úr söfnunargámi í hverfi 104. Aðilar voru farnir af vettvangi þegar lögreglan kom á staðinn.