Forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar og alþingismenn gengu fylktu liði úr Alþingishúsinu til Dómkirkjunnar fyrir skömmu þar sem messa hófst klukkan 13.30.
Séra Hildur Eir Bolladóttir, prestur í Akureyrarkirkju, predikar og biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, og séra Elínborg Sturludóttir, prestur í Dómkirkjunni, þjóna fyrir altari.
Þegar guðsþjónustu lýkur ganga forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir til þinghússins. Mun Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, setja Alþingi, 153. löggjafarþing.
Þingsetningarfundi verður síðan frestað til klukkan 15.30 en á honum verður m.a. hlutað um sæti þingmanna og fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2023 útbýtt. Fjármálaráðherra mælir síðan fyrir frumvarpi til fjárlaga næsta árs á fimmtudaginn.
Annað kvöld heldur forsætisráðherra stefnuræðu og fara umræður um hana þá m.a. fram.