„Ég veit ekki hversu algengt þetta er en ég giska á að þetta komi upp einu sinni til fjórum sinum á ári hjá okkur,“ segir Konráð Konráðsson, héraðsdýralæknir hjá Matvælastofnun um ólögleg dýr á Íslandi en sagt var frá því gær að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefði lagt hald á skriðdýr á heimili meints fíkniefnasala.
„Oft verður lögreglan vör við þetta eða við fáum ábendingu og þá er viðkomandi dýr yfirleitt aflífað af dýralækni, það er að segja ef um ólöglegan innflutning er að ræða,“ bætir Konráð við.
Konráð minnist á tilfellið að ofangreindu þar sem lagt var hald á eðlu sem var svo aflífuð. Þar fyrir utan man hann eftir tveimur öðrum álíka tilfellum á þessu ári.
Konráð segir að Matvælastofnun berist stundum ábendingar um ólögleg dýrahald hér á landi en eftir að málið er rannsakað kemur í ljós að þær ábendingar eigi ekki alltaf við rök að styðjast.
Þá segir í lögum að dýr sem eru flutt inn án heimildar skuli lóga tafarlaust og farga bótalaust á kostnað umráðanda.
Matvælastofnun er þó heimilt að gefa kost á að slík dýr séu tafarlaust send úr landi sé smitvörnum ekki ógnað. Sömuleiðis er í lögum gefið færi á að flytja inn ákveðin dýr sem teljast ólögleg hér á landi, en til þess þarf að sækja um sérstakt leyfi hjá Matvælastofnun sem leggur meðal annars mat á áhættuna sem fylgir innflutningnum.