Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Strætó bs. til að greiða konu 1,5 milljónir króna í skaðabætur og eina milljón í miskabætur með dráttarvöxtum fyrir ólögmæta uppsögn, en konan hafði samið um starfslok þann 30. nóvember árið 2020 vegna samskipta hennar við samstarfsmann eftir að hafa starfað hjá byggðasamlaginu frá árinu 2016.
Strætó bs. var einnig dæmt til að greiða konunni 1,2 milljón í málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Málsatvik eru þau að þann 30. nóvember 2020 var gerður starfslokasamningur sem byggðasamlagið hafði lagt til að konan myndi undirrita, ella yrði tekið til skoðunar að hefja formlega málsmeðferð gegn henni vegna óviðeigandi samskipta í tölvupósti og í samskiptaforritinu Teams sem konan að mati Strætó hefði viðhaft við samstarfsmann hennar en mannauðsstjóra Strætó bs. hafði fundist skilaboðin jaðra við kynferðislega áreitni. Konan hafði starfað sem þjónustufulltrúi hjá Strætó bs.
Starfslokasamningurinn fól í sér að konan lauk störfum þegar í stað en þáði óbreytt laun til 28. febrúar 2021. Um miðjan janúar 2021 leitaðist konan hins vegar eftir sáttum en hún taldi að Strætó bs. hafði vegið að æru sinni með uppsögninni og að framkvæmd hennar hafi verið meiðandi.
Það tókst ekki að koma á sáttum og kærði konan málið til kærunefndar jafnréttismála og til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Nefndin sem og ráðuneytið töldu uppsögnina hafa verið ólögmæta og var t.a.m. í báðum úrskurðum vísað til þess að byggðasamlagið hefði stytt sér leið að settu marki með starfslokasamningnum.
Í kjölfar þessara úrskurða, eftir að sáttumleitan af hálfu konunnar bar enn og aftur engan árangur, var mál þetta höfðað fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur. Konan krafðist skaða- og miskabóta úr hendi Strætó bs. á þeim grundvelli að henni hefði í raun verið sagt upp störfum, uppsögnin hafi verið ólögmæt og henni verið mismunað. Byggðasamlagið fór aðallega fram á að málinu yrði vísað frá þar sem aðilar höfðu samið um starfslok, lögskipti þeirra þá liðið undir lok og kröfur þeirra á milli fallið niður.
Á kröfur Strætó bs. féllst héraðsdómur ekki á. Benti héraðsdómur til þess að Strætó bs. hafði ekki höfðað mál til ógildingar framangreindra úrskurða, né heldur að öðru leyti hlutast til um aðild úrskurðaraðilanna. Sömuleiðis var það að mati héraðsdóms að Strætó bs. hafi byggt málatilbúnað sinn á því að virða beri að vettugi nefnda úrskurði.
Þá segir í dómi héraðsdóms; „Að áliti dómsins getur stefndi [Strætó bs.] ekki með réttu borið fyrir sig þær málsástæður sem þegar hefur verið fjallað um hjá þar til bærum úrskurðaraðilum án þess að beina þeim viðbárum sínum í þann farveg sem lög mæla fyrir um. Er því við að bæta að frestur til að höfða mál vegna úrskurðar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins er nú liðinn og verður því að telja úrskurðinn hafa bindandi réttaráhrif samkvæmt efni sínu.
Verður að framangreindu virtu lagt til grundvallar í máli þessu að stefnanda [konan] hafi verið mismunað við starfslok hjá stefnda [Strætó bs.] og að í þeim starfslokum hafi falist ólögmæt uppsögn. Að þessari niðurstöðu fenginni verður ekki fjallað frekar um aðrar þær málsástæður sem stefnandi teflir fram til stuðnings henni.“
Héraðsdómur Reykjavíkur féllst hins vegar ekki á kröfu konunnar um skaðabætur að fjárhæð 12.863.588 krónur. Tekjutap konunnar var ekki talið nema þeirri fjárhæð og voru skaðabætur taldar hæfilegar ákveðnar 1.500.000 krónur.
Miskabætur þóttu hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur og benti dómstóllinn sérstaklega til þess að starfslokin voru fyrirvaralaus og til þess fallin að skapa umtal á vinnustaðnum. Þá var talið að starfslokin, eins og að þeim var staðið, voru til þess fallin að valda konunni vanlíðan og andlegum þjáningum, en læknisvottorð voru á meðal gagna málsins sem sýndu fram á að konan hafði glímt við mikinn vanlíðan eftir að framangreind atvik áttu sér stað.
Þá var Strætó bs. gert að greiða konunni málskostnað að fjárhæð 1.200.000 krónur með tilliti til umfangs málsins og þess að konan hafi tapað málinu í öllu verulegu.