Nyrsti hluti jarðskjálftahrinunnar norðan Grímseyjar hefur upptök við Nafirnar en þær eru eldvirkt svæði.
Þetta kemur fram í facebook-færslu Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Þar segir jafnframt að á Nöfunum megi sjá fjöll og hraun sem myndast hafa eftir ísöld.
„Skjálftahrinan við Grímsey, hófst við sunnanverðar Nafirnar, færðist síðan til suðausturs eftir stórum norðlægum siggengjum í Skjálfandadjúpi og síðan aftur í Nafirnar,“ segir í færslunni.
Á myndinni sem stofnunin birti má sjá hafsbotnskort af upptakasvæði skjálftahrinunnar við Grímsey. Þar eru yfirfarnir jarðskjálftar samkvæmt Skjálftalísu Veðurstofunnar í svörtu og skjálftar 2020-2022 í gráu, teiknaðir eftir stærð.