„Við vorum að flytja í Hlíðarnar fyrir ári, úr miðbænum, og mér líst rosalega vel á hverfið, hér er mjög gott að vera,“ segir Haraldur Ari Stefánsson leikari í samtali við mbl.is en hann hefur við þriðja mann hleypt af stokkunum átakinu „Líf í Lönguhlíð“ sem jafnframt er undirskriftasöfnun íbúa þar um einmitt það sem nafnið gefur til kynna – meira líf í Hlíðarnar.
„Ég er mikið að labba með hundinn minn og fann fljótt hvað ég saknaði þess að geta sest einhvers staðar og fengið mér kaffibolla, til dæmis,“ segir Haraldur sem kveðst í framhaldinu hafa bryddað upp á málinu við nágranna sína. Jökull Sólberg og Ólafur Örn, sem standa með Haraldi að undirskriftasöfnuninni, höfðu að sögn Haraldar verið að ræða skort Hlíðanna sín á milli og saman hafi þeir ákveðið að fara í málið.
„Okkur langar bara að skora á borgina að beita sér í þessu máli, okkur langar að búa til betri stemmningu í Hlíðunum eins og er búið að gera til dæmis í Vesturbænum og Laugardalnum, svona borgarstemmningu,“ heldur Haraldur áfram og rifjar upp að Langahlíðin hafi áður hýst ýmis fyrirtæki, þar hafi verið blómabúð, kjörbúð og myndbandaleiga og má kannski hafa það síðasttalda til marks um að eitthvað vatn er runnið til sjávar síðan.
Kveður Haraldur viðtökur undirskriftalistans hafa farið fram úr vonum en þegar þetta er ritað hafa 460 manns lagt nafn sitt þar við. „Á fimmtudaginn ætlum við svo að hittast á horninu á Mávahlíð og Lönguhlíð, íbúar í hverfinu, aðallega til að vekja athygli svona til að byrja með, en í framhaldinu hyggjumst við svo boða fund með borginni og sýna þar fram á að í Hlíðunum búi fólk sem þyrsti í breytingar,“ segir Haraldur af krafti hins sannfærða.
Telur hann það ekki flókna aðgerð að blása lífi í Hlíðarnar, „þetta er ekki eins og að byggja leikskóla, bara fá einhverja stemmningu í hverfið. Nú er margt ungt fólk flutt í Hlíðarnar og allir úti að labba með barnavagna og hunda auk þess sem hér er menntaskóli. Ég held að ekki skorti áhuga veitingamanna á að opna eitthvað í Hlíðunum, það hefur bara reynst erfitt fram að þessu.“
Hvað með lífseiga umræðu sem reglulega skýtur upp kollinum og fjallar um að leggja Miklubraut í svokallaðan stokk? Telur Haraldur að rekstraraðilar haldi að sér höndum og kjósi að bíða og sjá hvað verði af þeirri framkvæmd áður en þeir leggja til atlögu við rekstur á svæðinu?
„Það getur vel verið en það er auðvitað svo ótrúlega stór aðgerð sem tekur tíma og það sem við erum að hugsa er bara að fá eitthvað í gang hérna núna. Maður hefur séð einhverjar teikningar af því hvernig þetta yrði og þær líta vel út, alla vega fyrir Hlíðabúa, en auðvitað eru skiptar skoðanir um allt,“ segir leikarinn.
Hann kveðst að lokum bjartsýnn á að átak þeirra þremenninga komi einhverju til leiðar og takast megi að búa til einhvers konar hverfisstemmningu í Hlíðunum. „Þetta er bara eitthvað sem mér finnst mikilvægt að sé til staðar,“ segir Haraldur Ari Stefánsson, íbúi í Hlíðunum, að lokum, vongóður um að þar megi gera góða hluti eins og í öðrum rótgrónum hverfum höfuðborgarinnar.