Framkvæmdir við svokallaða Ævintýraborg við Nauthólsveg í Reykjavík eru í fullum gangi. Af nafninu að dæma mætti ætla að þarna væri að rísa stórhýsi en í raun eru þetta færanlegar gámaeiningar á einni hæð, sem innréttaðar eru fyrir leikskólastarf. Þetta verður sex deilda leikskóli, sem getur tekið við 100 börnum.
Á heimasíðu Reykjavíkurborgar kemur fram að leikskólinn verði opnaður fyrri hluta septembermánaðar. Lögð verður áhersla á fjölbreytta útiveru barna í Öskjuhlíðinni, Nauthólsvík og næsta nágrenni meðan unnið verður að frágangi útileiksvæðis við skólann, sem stefnt er á að verði tilbúið fyrri hluta október.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.