Eflaust rétt að sumar stofnanir eru of litlar

Árni Einarsson, líffræðingur og forstöðumaður RAMÝ, segir tæpast inni í …
Árni Einarsson, líffræðingur og forstöðumaður RAMÝ, segir tæpast inni í myndinni að leggja stofnunina niður þar sem tilvist hennar byggi á sáttargjörð milli ríkis og landeigenda við Mývatn og Laxá. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef ekki fylgst með umræðu um litlar ríkisstofnanir, en það er eflaust rétt að sumar stofnanir eru of litlar,“ segir Árni Einarsson, líffræðingur og forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, eða RAMÝ, vísindastofnunar á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins sem starfrækt hefur verið síðan 1974.

Árni er spurður út í það ætlunarverk Bjarna Benediktssonar, efnahags- og fjármálaráðherra, að halda áfram að sameina ríkisstofnanir með það að markmiði að einfalda kerfið og ná fram hagræðingu. Viðraði ráðherra þá skoðun sína við kynningu fjárlagafrumvarpsins á mánudaginn að hann teldi vafasamt að halda úti ríkisstofnunum með færri en tíu starfsmenn.

Starfsmenn RAMÝ eru tveir, téður Árni og Unnur Jökulsdóttir rithöfundur sem annast útgáfu- og kynningarstjórn stofnunarinnar.

Árni telur tvennt í stöðunni vilji menn gera breytingar á stærð ríkisstofnana, stækka þær eða sameina annarri stofnun. „Þriðji kosturinn, að leggja stofnunina eða starfsemina niður, er tæpast í myndinni þegar RAMÝ er annars vegar, því að tilvist hennar byggir á sáttargjörð milli ríkis og landeigenda við Mývatn og Laxá um að ríkið muni reisa og reka náttúrurannsóknastöð við Mývatn,“ útskýrir Árni.

Náttúra Mývatns mun alltaf laða til sín fólk

Samkomulag þetta hafi verið gert og lögfest eftir Laxárdeiluna frægu, andóf við virkjun Laxár sem náði hámarki þegar Mývetningar tóku sig til og sprengdu stífluna við Miðkvísl 25. ágúst 1970, og segir Árni engan fýsa að hrófla við samkomulaginu.

„Það er alveg hægt að víkka út starfsemi náttúrurannsóknastöðvar við Mývatn og gera hana að meiri drifkrafti í samfélaginu, til dæmis með skólahaldi á alþjóðavísu. Furðufyrirbærið sem náttúra Mývatns er mun alltaf laða til sín fólk,“ segir forstöðumaðurinn og bætir því við að sameining við aðra stofnun gæti einnig vel orðið lyftistöng ef vel tækist til og þá fyrir báðar hlutaðeigandi stofnanir.

„Nýbyrjað er að skoða skipulag allra þeirra stofnana sem heyra undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og vonandi kemur eitthvað skynsamlegt og skemmtilegt út úr því,“ segir Árni Einarsson, forstöðumaður RAMÝ, að lokum.

Heimasíða RAMÝ

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert