„Ekki nóg að vera gestrisinn“

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, var harðskeytt í ræðustól Alþingis …
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, var harðskeytt í ræðustól Alþingis í kvöld. Skjáskot/Alþingi.is

„Það er gott að vera komin aftur. Miklu betra en að hlusta á þessa innihaldslausu stefnuræðu forsætisráðherra, sem ég hafði nú gert mér miklu meiri væntingar til,“ hóf Inga Sæland, þingmaður Flokks fólksins, mál sitt í umræðum um stefnuræðu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra sem nú standa yfir á Alþingi.

Sagði Inga með ólíkindum að æðsti valdhafi þjóðarinnar talaði um nánast ekki neitt, hefði einungis haft uppi létta sögustund og ekki minnst einu orði á þann þjóðfélagshóp sem Inga sjálf væri málsvari fyrir á þingi, „gleymda fólkið, fátæka fólkið, fólkið sem stendur í röðum fyrir framan matarstofnanir að biðja um mat, fátæku börnin sem geta ekki nýtt sér það sem hæstvirtur forsætisráðherra sagði að við skyldum gjarnan gera fyrir gesti okkar sem sækja okkur heim“, sagði Inga.

„Þeim líður illa“

Vísaði hún þar til þeirra orða forsætisráðherra að gera skyldi gestum landsins kleift að komast í leikhús, kenna þeim og hjálpa og gera þeim kleift að taka þátt í íþróttum. „En hvað um þá sem eru hér fyrir? Það er ekki nóg að vera gestrisinn, það er ekki nóg að taka á móti fólki og þykjast allt fyrir alla vilja gera.

Það verður líka að standa við það, það verða að fylgja efndir og það er algjört grundvallaratriði þegar við tökum á móti fólki sem við viljum opna faðminn fyrir að við gefum þeim tækifæri á að aðlagast samfélaginu okkar og tala íslensku. Að við séum ekki að hamla þeim að tala íslensku,“ sagði Inga og spurði í framhaldinu hvernig börnum innflytjenda liði sem sótt væri í kennslustofu og þeim kennd íslenska tvo tíma á viku. „Illa, virðulegi forseti. Þeim líður illa,“ svaraði þingmaðurinn eigin spurningu.

Ræddi Inga þeim mun geðheilbrigðismál stuttlega og þá bið sem þar bíður margra. Eins gott væri að þurfa ekki á bráðaaðstoð að halda á þeim vettvangi nema milli klukkan tólf og fimm á virkum dögum nema fólk þyrfti þangað gegnum lögreglu.

Muni veita harða stjórnarandstöðu

Sagði hún aukinheldur að hlægilegt væri að setja háleit markmið í kolefnislosunarmálum á sama tíma og ríkisstjórnin væri í þann mund að leggja fimm milljarða skatt á rafmagnsbíla strax á næsta ári.

Lauk Inga ræðu sinni með því að heita því að Flokkur fólksins kæmi til með að veita harða stjórnarandstöðu í vetur. „Enda veitir ekki af. Flokkur fólksins er flokkur þeirra sem hafa verið týndir og settir hjá garði. Og við munum aldrei bregðast þeim sem hafa gefið okkur sitt dýrmæta atkvæði og gefið sjálfum sér um leið sex öfluga þingmenn á Alþingi Íslendinga,“ voru lokaorð ræðu Ingu Sæland í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert