Eldgosið ólíkt flestum öðrum gosum í heiminum

Eldgosið í Fagradalsfjalli í mars í fyrra.
Eldgosið í Fagradalsfjalli í mars í fyrra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tvær greinar eftir jarðvísindafólk á Íslandi birtust í nýjasta hefti hins virta tímarits Nature í dag.

Greinarnar eru báðar helgaðar eldgosinu í Fagradalsfjalli í fyrra og eru eftir vísindamenn Háskóla Íslands, Veðurstofu Íslands og samstarfsfólk víða um heim.

Í tilkynningu frá HÍ segir að afar sjaldgæft sé að vísindamenn á Íslandi fái tvær greinar birtar í sama hefti Nature.

„Rannsóknirnar sýna að undanfari eldgossins í Fagradalsfjalli var ólíkur undanfara margra gosa í heiminum og efnasamsetning hraunsins breyttist eftir því sem leið á gosið,“ segir í tilkynningunni.

Undanfari gossins óvenjulegur

Í annarri greininni sem birtist í Nature í dag er fjallað um aðdragandann að gosinu og hvernig hann greinir sig frá undanfara margra annarra eldgosa í heiminum.

Greinin ber yfirskriftina „Deformation and seismicity decline before the 2021 Fagradalsfjall eruption“.

Þar kemur fram að vikurnar fyrir gosið hafi einkennst af spennulosun í jarðskorpunni en á síðustu dögunum fyrir gosið hafi hins vegar dregið úr jarðskorpuhreyfingum og skjálftavirkni á svæðinu í kringum gosstöðvarnar.

Það sé ólíkt aðdraganda eldgosa víða í heiminum sem einkennast oft af jarðskjálftum og stigvaxandi jarðskorpuhreyfingum skömmu fyrir gos þegar kvika þrýstir sér upp á yfirborðið.

Greinin var unnin undir forystu Freysteins Sigmundssonar, vísindamanns við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, og Michelle Parks, sérfræðings í jarðskorpuhreyfingum við Veðurstofu Íslands.

Ásamt þeim komu margir vísindamenn að rannsókninni hérlendis og frá Bretlandi, Nýja-Sjálandi og Tékklandi.

Hraunið kom af óvenju miklu dýpi

Í hinni greininni kemur meðal annars fram að eldgosið í Fagradalsfjalli hafi verið ólíkt flestum öðrum eldgosum á jörðinni vegna þess hversu djúpt úr jörðinni hraunið kom.

Þar segir að hraunið hafi átt uppruna sinn í kvikuhólfi á miklu dýpi á mótum jarðskorpu og möttuls. Kvika komi í langflestum tilfellum úr kvikuhólfi sem liggur á litlu dýpi í jarðskorpunni.

Vísindasamfélagið öðlast því nýja þekkingu á dýpsta hluta eldstöðvakerfa sem hingað til hefur skort upplýsingar um.

Greinin heitir „Rapid shifting of a deep magmatic source at Fagradalsfjall volcano, Iceland“ en Sæmundur Ari Halldórsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans, leiddi vinnuna við rannsóknina.

Stór hópur vísindamanna hérlendis og frá Frakklandi, Bandaríkjunum, Englandi, Svíþjóð og Ítalíu vann að síðarnefndu rannsókninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert