Í þessari viku hefur fundist töluvert af hvalbeinum í stærri verbúðinni á Hvítsöndum í landi Bjarnaness á Ströndum þar sem fornleifarannsókn fer fram, en vika tvö í rannsókn á víkingaaldarverbúðum hófst í gær.
Gripaflóran er fjölbreyttari í minni verbúðinni, að því er fram kemur á Facebook-síðu verkefnisins.
„Það sem hefur komið okkur á óvart og þó ekki er hvað þetta eru margir staðir á litlu svæði þar sem eru svona verbúðir. Það sem við sjáum líka er að það breytist eitthvað á miðöldum.
Þessar víkingaaldarverbúðir leggjast af en við teljum að á miðöldum verða verstöðvarnar færri en stærri og líklega stjórnað af færri einstaklingum en á víkingaöld, en við eigum eftir að rannsaka þetta betur og grafa upp fleiri verbúðir,“ segir fornleifafræðingurinn Lísabet Guðmundsdóttir í samtali við mbl.is.
Lísabet stýrir rannsókninni en hún er samstarf Fornleifastofnunar Íslands og Háskólans í Bergen.
Greint var frá því á dögunum að sjaldgæfur rafgripur hefði fundist í fornleifauppgreftrinum. Gripurinn hefur líklega verið notaður sem skraut og bendir til þess að fólkið sem dvaldi á þessu svæði hefur eflaust haft eitthvað á milli handanna.
Á meðal gripa sem hafa fundist í rannsókninni eru bátasaumar, sem bendir til þess að gert hafi verið við báta, eldtinna og einhvers konar hnífur.
Uppgreftrinum á Hvítsöndum lýkur í þessari viku en svo tekur við úrvinnsluferli, þar á meðal ítarlegri rannsókn á gripum.