Frá klukkan 17 til 23 í dag komu 26 mál til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og má þar nefna sem dæmi ölvaðan mann er gekk berserksgang í matvöruverslun í miðbænum á sjöunda tímanum í kvöld. Hafði sá grýtt matvörum um verslunina og verið lítt við alþýðuskap er lögreglu bar að garði og hafði hann með sér til vistunar í fangaklefa.
Um klukkustund áður en þetta gerðist var tilkynnt um annan ölvaðan mann sem lét dólgslega í verslun í miðbænum. Hafði félagi hans bæst við þegar lögregla kom á vettvang og hegðaði sér að sögn lögreglu engu betur. Reyndust báðir með þýfi úr versluninni á sér og sofa nú úr sér í fangageymslum við Hverfisgötu.
Það var svo klukkan 18:31 sem tilkynnt var um líkamsárás og ránstilraun í Austurbænum. Var gerandi handtekinn og vistaður í þágu rannsóknar málsins en sá sem misgert var við fluttur á slysadeild til aðhlynningar.