Gunnar varð uppvís að kynferðislegri áreitni

Gunnar Sigurjónsson fær væntanlega skriflega áminningu.
Gunnar Sigurjónsson fær væntanlega skriflega áminningu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnar Sigurjónsson sem gegndi stöðu sóknarprests í Digraneskirkju var í tíu tilvikum uppvís að háttsemi sem stríðir gegn ákvæðum reglugerðar Þjóðkirkjunnar um einelti, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni og ofbeldi.

Þetta er niðurstaða teymis Þjóðkirkjunnar, en teymið metur jafnframt að háttsemi Gunnars í orði og athöfnum hafi verið ósæmileg, óhæfileg og ósamrýmanleg starfi hans sem sóknarprests.

Þjóðkirkjan sendi frá sér tilkynningu vegna málsins fyrr í dag, en þar var Gunnar ekki nafngreindur og ekki gefið upp um hvaða prestakall væri að ræða. Aðeins var talað um sóknarprestur hefði orðið uppvís að áðurnefndri háttsemi, samkvæmt niðurstöðu teymisins. Samkvæmt heimildum mbl.is er um Gunnar að ræða.

Áformað að veita Gunnari áminningu

Mat teymið það svo að sókn­ar­prest­ur­inn hafi orðið upp­vís af orðbund­inni kyn­ferðis­legri áreitni gagn­vart tveim­ur þolend­um, en í þremur tilvikum hafi hann orðið upp­vís af orðbund­inni kyn­bund­inni áreitni gagn­vart tveim­ur ein­stak­ling­um.

Samkvæmt frétt Stundarinnar frá því í febrúar á þessu ári fékk teymið fyrst tilkynningar um háttsemi Gunnars í október á síðasta ári og í nóvember munu þrjár konur hafa skilað minnisblaði til teymisins vegna ofbeldis og áreitis. Fleiri konur hafi bæst hópinn eftir því sem rannsókninni vatt fram.

Hafði Stundin það eftir heimildum að áreitið og ofbeldið hafi verið með þeim hætti að einhverjar kvennanna hefðu ekki treyst sér til að starfa áfram við prestakallið.

Gunnar var sendur í leyfi frá störfum sem sóknarprestur í Digranes- og Hjallaprestakalli í kjölfar ásakananna. Hann hefur nú látið af störfum við prestakallið og áformað er að veita honum skriflega áminningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka