Hæstiréttur mun taka fyrir mál nokkurra erfingja Sigurðar K. Hjaltested gegn Kópavogsbæ, sem varðar milljarðakröfur vegna eignarnáms bæjarins á Vatnsendajörðinni.
Hinn 25. apríl 2014 var Kópavogsbæ birt stefna af hálfu erfingja Sigurðar, fyrrum ábúanda á Vatnsenda, þar sem bærinn var krafinn um að greiða dánarbúi Sigurðar tæpa 75 milljarða króna vegna eignarnáms á landi Vatnsenda árin 1992, 1998, 2000 og 2007.
Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 22. desember 2020 var Kópavogsbær sýknaður af öllum dómkröfum erfingjanna sem tóku til eignarnáms árin 1992, 1998 og 2000 en vegna eignarnáms Kópavogsbæjar 2007 var bærinn dæmdur til þess að greiða dánarbúi Sigurðar 968 milljónir króna.
Landsréttur sneri við niðurstöðu héraðsdóms eftir að málinu var áfrýjað, að því er varðar eignarnám bæjarins árið 2007, en staðfesti niðurstöðu héraðsdóms að öðru leyti og sýknaði Kópavogsbæ þannig af öllum dómkröfum í málinu.
Fjölmargir dómar hafa gengið í málum sem tengjast eignarhaldi og umráðum yfir jörðinni. Upphaf málsins teygir sig til fjórða áratugar síðustu aldar, þegar Magnús Einarsson Hjaltested, föðurbróðir Sigurðar, arfleiddi hann að jörðinni.
Taldi Landsréttur að ætla yrði að það hafi verið vilji Magnúsar að bætur vegna eignarnáms rynnu almennt til ábúanda jarðarinnar hverju sinni. Hefði Magnús því ráðstafað ríkum afnota- og umráðarétti jarðarinnar til framtíðar og þar með hefði rétturinn til að framselja eignina verið slitinn frá hinum beina eignarrétti og fylgdi ekki heldur hinum óbeinu eignarréttindum.
Lagði Landsréttur því til grundvallar í málinu að eigendur beina eignarréttarins, sem nú væri dánarbú Sigurðar, gæti ekki vænst tekna af jörðinni til framtíðar og væri tekjuöflunarvirði beina eignarréttarins því ekkert.