Yfirgnæfandi meirihluti þeirra barna sem vistuð voru á meðferðarheimilinu að Laugalandi og Varpholti, og tóku þátt í rannsókn á upplifun sinni af heimilinu, upplifðu andlegt ofbeldi við dvölina. Lýsti það sér í óttastjórn, harðræði og niðurbroti. Sterkar vísbendingar eru um að alvarlegu andlegu ofbeldi hafi verið beitt með kerfisbundnum hætti.
Fjórtán af fyrrum vistbörnum segjast jafnframt hafa verið beitt líkamlegu ofbeldi. Samkvæmt lýsingum fólst ofbeldið m.a. í að börnum hafi verið hrint niður stiga, þau lamin með inniskó eða slegin utan undir.
Ein stúlka greindi frá kynferðislegri áreitni vegna starfsmanns á meðferðarheimilinu sem nuddaði á henni eggjastokkana. Annar starfsmaður tilkynnti atvikið til Barnaverndarstofu og í kjölfarið hætti sá störfum, sem sakaður var um nuddið. Skömmu síðar var honum þó falið að veita öðru langtímameðferðarheimili forstöðu, sem rekið var á grundvelli þjónustusamnings við Barnaverndarstofu.
Þetta kemur fram í skýrslu Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála (GEV), um meðferðarheimilið í Varpholti og á Laugalandi árin 1997-2007 sem var gefin út fyrr í dag.
Nefnd, skipuð fjórum sérfræðingum með þekkingu á rannsóknum, barnavernd og áföllum unnu að úttektinni. Stóð verkefnið yfir í um 18 mánuði og er greinargerðin alls 237 blaðsíður en ásamt henni var einnig birt fimm blaðsíðna ítarefni með samantekt á megin innihaldi greinargerðarinnar.
Ingjaldur Arnþórsson rak meðferðarheimilið fyrir stúlkur á aldrinum 13 til 18 ára á árunum 1997 til 2007. Alvarlegar ásakanir um ofbeldi og harðræði af hálfu forstöðumannsins komu fram á starfstíma meðferðarheimilisins en yfirvöld aðhöfðust ekkert í málinu. Þess í stað lýsti þáverandi forstjóri Barnaverndarstofu, Bragi Guðbrandsson, yfir fullu trausti á Ingjaldi árið 2007.
Það var ekki fyrr en í febrúar á síðasta ári að ríkisstjórnin samþykkti loks tillögu Ásmundar Einars Daðasonar, sem þá var félagsmálaráðherra, þar sem GEV var falið að rannsaka málið. Sú ákvörðun var tekin í kjölfar þess að sex konur stigu fram og lýstu bæði líkamlegu og andlegu ofbeldi af hálfu Ingjalds.
Könnun GEV byggir annars vegar á fyrirliggjandi gögnum frá þeim barnaverndarnefndum sem vistuðu börn á meðferðarheimilinu, dagbókum meðferðarheimilisins og fundargerðum og hins vegar á viðtölum.
Viðtöl voru tekin við 54 einstaklinga, þar af voru 34 úr hópi fyrrum vistbarna, 11 sem störfuðu áður við meðferðarheimilið, sjö fyrrum starfsmenn Barnaverndarstofu og tveir starfsmenn barnaverndarnefnda.
Meðferðarheimilið átti að vera fjölskylduheimili þar sem lögð yrði áhersla á nánd við meðferðaraðila og heimilislegt yfirbragð. Bjuggu forstöðuhjónin á staðnum ásamt tveimur börnum sínum.
Í skýrslunni er talið að sálfræðiþjónustan fyrir börnin á meðferðarheimilinu hafi verið ófullnægjandi og ekki hafi verið brugðist við á fullnægjandi hátt við ákalli um að hún yrði aukin til að mæta þörfum skjólstæðinganna.
Segir þar einnig að eftirlitsskylda barnaverndaryfirvalda hafi brugðist að því leyti að þau hefðu átt að bregðast við ákalli um aukna geðheilbrigðisþjónustu. Þau hefðu sömuleiðis átt að skerast í leikinn þegar ljóst var hve mikið álag hvíldi á starfsfólki meðferðarheimilisins.
Þá hefði skoðun á dagbókum og fundargerðarbókum átt að vekja grunsemdir um neikvæð viðhorf í garð vistbarna og gefa tilefni til að kanna hvort þau endurspegluðust í framkomu við þau.
Í skýrslu GEV segir að af lestri ársskýrslna heimilisins hafi mátt sjá hvernig meðferðarstarfið hafi þróast frá því að byggja á enduruppeldi og batavinnu yfir í fjögurra-þrepa-kerfi sem einkenndist meira af refsingum en umbunum. Upplifðu vistbörnin niðurbrot í þrepakerfinu.
Þá upplifðu starfsmenn heimilisins einnig að nýja kerfið hefði einkennst af refsigleði og réttindamissi. Forstöðuhjónin sögðu tilganginn með þrepakerfinu hafa verið sá að koma skipulagi á reglur heimilisins og til þess að halda utan um vistbarnahópinn.
Í skýrslunni segir að börnin á heimilinu á árunum 1997-2007 hafi verið með ólíkan bakgrunn og að vandi þeirra hafi oft og tíðum verið fjölþættur og þarfirnar flóknar.
„Við gagnaöflun fengust upplýsingar um 61 af 65 vistbörnum. Greining og flokkun á vanda skjólstæðingahópsins sýndi að algengast var að barn glímdi við hegðunarvanda eða áhættuhegðun í víðum skilningi (59 börn), tilfinningalegan og/eða geðrænan vanda (51 barn) eða neyslu áfengis og/eða annarra vímuefna (45 börn).
Misnotkun áfengis var algengust, en nokkur börn voru komin í alvarlega vímuefnaneyslu. Skoðun og greining á málum barnanna leiddi jafnframt í ljós að 35 börn af 61 höfðu verið misnotuð kynferðislega.“
Af þeim 34 fyrrum vistbörnum sem viðtöl voru tekin við upplifðu alls 22 þeirra að þörfum þeirra hafi ekki verið mætt á meðferðarheimilinu. Mörg sögðu faglega þjónustu hafa verið af skornum skammti og ófullnægjandi, jafnvel lítilsvirðandi.
Alls 30 af 34 einstaklingum sem komu í viðtal, sögðust hafa upplifað andlegt ofbeldi einu sinni eða oftar á meðferðartímanum. Voru þessar frásagnir oftast af óttastjórnun, harðræði eða niðurbroti, aðallega af hendi forstöðumanns en einnig í nokkrum tilvikum af hálfu forstöðukonu.
Þá greindu fyrrum vistbörn einnig frá því að hafa orðið vitni að því að annar unglingur hafi verið beittur andlegu ofbeldi en almennt vildu starfsmenn ekki kannast við slíkt, þó með undantekningum þar sem starfsmaður lýsir að honum hafi verið misboðið.
Starfsmennirnir könnuðust þó við skapsveiflur og mislyndi forstöðumannsins og voru þeir sammála um að geðslag hans hefði haft áhrif á andrúmsloftið á heimilinu.
Þá var einnig rætt við forstöðuhjónin, sitt í hvoru lagi, sem sögðust aldrei hafa talað niður til vistbarnanna eða notað niðrandi orð í samskiptum við þau.
Úr hópi fyrrum vistbarna greindu 14 af 34 viðmælendum frá því að hafa verið beitt líkamlegu ofbeldi. Var forstöðumaðurinn tilgreindur gerandi í frásögnum tólf þeirra, en tvær stúlkur tilgreina forstöðukonuna. Þá sögðust önnur fyrrum vistbörn jafnframt hafa séð eða heyrt þegar aðrir voru beittir ofbeldi af hálfu forstöðumannsins.
Fól líkamlega ofbeldið m.a. í sér að börnum var hrint niður stiga, lamin með inniskó og slegin utan undir.
Starfsfólk kannaðist þó ekki við að vistbörn hafi verið beitt líkamlegu ofbeldi eða líkamlegum refsingum. Forstöðuhjónin könnuðust sömuleiðis ekki við að hafa beitt vistbörnin ofbeldi.
Fréttin hefur verið uppfærð.