Óttastjórn, harðræði og niðurbrot á vistheimilinu

Meðferðarheimilið var rekið á árunum 1997 til 2007.
Meðferðarheimilið var rekið á árunum 1997 til 2007. mbl.is/Ófeigur

Yf­ir­gnæf­andi meiri­hluti þeirra barna sem vistuð voru á meðferðar­heim­il­inu að Laugalandi og Varp­holti, og tóku þátt í rann­sókn á upp­lif­un sinni af heim­il­inu, upp­lifðu and­legt of­beldi við dvöl­ina. Lýsti það sér í ótta­stjórn, harðræði og niður­broti. Sterk­ar vís­bend­ing­ar eru um að al­var­legu and­legu of­beldi hafi verið beitt með kerf­is­bundn­um hætti. 

Fjór­tán af fyrr­um vist­börn­um segj­ast jafn­framt hafa verið beitt lík­am­legu of­beldi. Sam­kvæmt lýs­ing­um fólst of­beldið m.a. í að börn­um hafi verið hrint niður stiga, þau lam­in með inni­skó eða sleg­in utan und­ir.

Ein stúlka greindi frá kyn­ferðis­legri áreitni vegna starfs­manns á meðferðar­heim­il­inu sem nuddaði á henni eggja­stokk­ana. Ann­ar starfsmaður til­kynnti at­vikið til Barna­vernd­ar­stofu og í kjöl­farið hætti sá störf­um, sem sakaður var um nuddið. Skömmu síðar var hon­um þó falið að veita öðru lang­tímameðferðar­heim­ili for­stöðu, sem rekið var á grund­velli þjón­ustu­samn­ings við Barna­vernd­ar­stofu.

Þetta kem­ur fram í skýrslu Gæða- og eft­ir­lits­stofn­un­ar vel­ferðar­mála (GEV), um meðferðar­heim­ilið í Varp­holti og á Laugalandi árin 1997-2007 sem var gef­in út fyrr í dag.

Nefnd, skipuð fjór­um sér­fræðing­um með þekk­ingu á rann­sókn­um, barna­vernd og áföll­um unnu að út­tekt­inni. Stóð verk­efnið yfir í um 18 mánuði og er grein­ar­gerðin alls 237 blaðsíður en ásamt henni var einnig birt fimm blaðsíðna ít­ar­efni með sam­an­tekt á meg­in inni­haldi grein­ar­gerðar­inn­ar.

Hundsuðu ásak­an­irn­ar

Ingj­ald­ur Arnþórs­son rak meðferðar­heim­ilið fyr­ir stúlk­ur á aldr­in­um 13 til 18 ára á ár­un­um 1997 til 2007. Al­var­leg­ar ásak­an­ir um of­beldi og harðræði af hálfu for­stöðumanns­ins komu fram á starfs­tíma meðferðar­heim­il­is­ins en yf­ir­völd aðhöfðust ekk­ert í mál­inu. Þess í stað lýsti þáver­andi for­stjóri Barna­vernd­ar­stofu, Bragi Guðbrands­son, yfir fullu trausti á Ingj­aldi árið 2007.

Það var ekki fyrr en í fe­brú­ar á síðasta ári að rík­is­stjórn­in samþykkti loks til­lögu Ásmund­ar Ein­ars Daðason­ar, sem þá var fé­lags­málaráðherra, þar sem GEV var falið að rann­saka málið. Sú ákvörðun var tek­in í kjöl­far þess að sex kon­ur stigu fram og lýstu bæði lík­am­legu og and­legu of­beldi af hálfu Ingj­alds.

Viðtöl við 54 ein­stak­linga

Könn­un GEV bygg­ir ann­ars veg­ar á fyr­ir­liggj­andi gögn­um frá þeim barna­vernd­ar­nefnd­um sem vistuðu börn á meðferðar­heim­il­inu, dag­bók­um meðferðar­heim­il­is­ins og fund­ar­gerðum og hins veg­ar á viðtöl­um.

Viðtöl voru tek­in við 54 ein­stak­linga, þar af voru 34 úr hópi fyrr­um vist­barna, 11 sem störfuðu áður við meðferðar­heim­ilið, sjö fyrr­um starfs­menn Barna­vernd­ar­stofu og tveir starfs­menn barna­vernd­ar­nefnda. 

Meðferðar­heim­ilið átti að vera fjöl­skyldu­heim­ili þar sem lögð yrði áhersla á nánd við meðferðaraðila og heim­il­is­legt yf­ir­bragð. Bjuggu for­stöðuhjón­in á staðnum ásamt tveim­ur börn­um sín­um.

Ref­sigleði og rétt­inda­miss­ir

Í skýrsl­unni er talið að sál­fræðiþjón­ust­an fyr­ir börn­in á meðferðar­heim­il­inu hafi verið ófull­nægj­andi og ekki hafi verið brugðist við á full­nægj­andi hátt við ákalli um að hún yrði auk­in til að mæta þörf­um skjól­stæðing­anna.

Seg­ir þar einnig að eft­ir­lits­skylda barna­vernd­ar­yf­ir­valda hafi brugðist að því leyti að þau hefðu átt að bregðast við ákalli um aukna geðheil­brigðisþjón­ustu. Þau hefðu sömu­leiðis átt að sker­ast í leik­inn þegar ljóst var hve mikið álag hvíldi á starfs­fólki meðferðar­heim­il­is­ins.

Þá hefði skoðun á dag­bók­um og fund­ar­gerðar­bók­um átt að vekja grun­semd­ir um nei­kvæð viðhorf í garð vist­barna og gefa til­efni til að kanna hvort þau end­ur­spegluðust í fram­komu við þau.

Í skýrslu GEV seg­ir að af lestri árs­skýrslna heim­il­is­ins hafi mátt sjá hvernig meðferðar­starfið hafi þró­ast frá því að byggja á end­urupp­eldi og bata­vinnu yfir í fjög­urra-þrepa-kerfi sem ein­kennd­ist meira af refs­ing­um en umb­un­um. Upp­lifðu vist­börn­in niður­brot í þrepa­kerf­inu.

Þá upp­lifðu starfs­menn heim­il­is­ins einnig að nýja kerfið hefði ein­kennst af ref­sigleði og rétt­inda­missi. For­stöðuhjón­in sögðu til­gang­inn með þrepa­kerf­inu hafa verið sá að koma skipu­lagi á regl­ur heim­il­is­ins og til þess að halda utan um vist­barna­hóp­inn.

35 börn höfðu verið mist­notuð kyn­ferðis­lega

Í skýrsl­unni seg­ir að börn­in á heim­il­inu á ár­un­um 1997-2007 hafi verið með ólík­an bak­grunn og að vandi þeirra hafi oft og tíðum verið fjölþætt­ur og þarf­irn­ar flókn­ar. 

„Við gagna­öfl­un feng­ust upp­lýs­ing­ar um 61 af 65 vist­börn­um. Grein­ing og flokk­un á vanda skjól­stæðinga­hóps­ins sýndi að al­geng­ast var að barn glímdi við hegðun­ar­vanda eða áhættu­hegðun í víðum skiln­ingi (59 börn), til­finn­inga­leg­an og/​eða geðræn­an vanda (51 barn) eða neyslu áfeng­is og/​eða annarra vímu­efna (45 börn).

Mis­notk­un áfeng­is var al­geng­ust, en nokk­ur börn voru kom­in í al­var­lega vímu­efna­neyslu. Skoðun og grein­ing á mál­um barn­anna leiddi jafn­framt í ljós að 35 börn af 61 höfðu verið mis­notuð kyn­ferðis­lega.“ 

Af þeim 34 fyrr­um vist­börn­um sem viðtöl voru tek­in við upp­lifðu alls 22 þeirra að þörf­um þeirra hafi ekki verið mætt á meðferðar­heim­il­inu. Mörg sögðu fag­lega þjón­ustu hafa verið af skorn­um skammti og ófull­nægj­andi, jafn­vel lít­ilsvirðandi.

Alls 30 af 34 ein­stak­ling­um sem komu í viðtal, sögðust hafa upp­lifað and­legt of­beldi einu sinni eða oft­ar á meðferðar­tím­an­um. Voru þess­ar frá­sagn­ir oft­ast af ótta­stjórn­un, harðræði eða niður­broti, aðallega af hendi for­stöðumanns en einnig í nokkr­um til­vik­um af hálfu for­stöðukonu.

Kann­ast ekki við að hafa talað niður til barn­anna

Þá greindu fyrr­um vist­börn einnig frá því að hafa orðið vitni að því að ann­ar ung­ling­ur hafi verið beitt­ur and­legu of­beldi en al­mennt vildu starfs­menn ekki kann­ast við slíkt, þó með und­an­tekn­ing­um þar sem starfsmaður lýs­ir að hon­um hafi verið mis­boðið.

Starfs­menn­irn­ir könnuðust þó við skapsveifl­ur og mis­lyndi for­stöðumanns­ins og voru þeir sam­mála um að geðslag hans hefði haft áhrif á and­rúms­loftið á heim­il­inu.

Þá var einnig rætt við for­stöðuhjón­in, sitt í hvoru lagi, sem sögðust aldrei hafa talað niður til vist­barn­anna eða notað niðrandi orð í sam­skipt­um við þau.

14 greindu frá því að hafa orðið fyr­ir lík­am­legu of­beldi

Úr hópi fyrr­um vist­barna greindu 14 af 34 viðmæl­end­um frá því að hafa verið beitt lík­am­legu of­beldi. Var for­stöðumaður­inn til­greind­ur ger­andi í frá­sögn­um tólf þeirra, en tvær stúlk­ur til­greina for­stöðukon­una. Þá sögðust önn­ur fyrr­um vist­börn jafn­framt hafa séð eða heyrt þegar aðrir voru beitt­ir of­beldi af hálfu for­stöðumanns­ins.

Fól lík­am­lega of­beldið m.a. í sér að börn­um var hrint niður stiga, lam­in með inni­skó og sleg­in utan und­ir. 

Starfs­fólk kannaðist þó ekki við að vist­börn hafi verið beitt lík­am­legu of­beldi eða lík­am­leg­um refs­ing­um. For­stöðuhjón­in könnuðust sömu­leiðis ekki við að hafa beitt vist­börn­in of­beldi.

Frétt­in hef­ur verið upp­færð.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert