Logi Einarsson, formaður Samfylkingar, gerði Vinstri græna að umtalsefni í umræðum um stefnuræðu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í kvöld, og taldi flokkinn hafa lítil völd í stjórnarsamstarfinu.
Rifjaði hann upp þegar Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra, sagði á flokksráðsfundi Vinstri grænna í lok ágúst að hann vildi sjá aðra ríkisstjórn á næsta kjörtímabili.
„Fyrir síðustu kosningar tókst ríkisstjórnarflokkunum að höfða til öryggisþarfar í kjölfar covid og þreytu á stjórnmálum almennt og útkoman er sama gamla stjórnin,“ sagði Logi í byrjun ræðu sinnar og hélt áfram:
„Útkoman er sama gamla stjórnin sem engum finnst beinlínis vond en en engum finnst heldur koma miklu í verk og heldur sér í horfinu. Á meðan hrannast mikilvæg verkefni upp. Það er nefnilega ekki alltaf best að kjósa óbreytt óstand,“ sagði Logi. Telur hann að Vinstri grænir hafi lítil völd í stjórnarsamstarfinu.
„Í skjóli meintrar valdastöðu Vinstri grænna kyngir flokkurinn lækkun veiðigjalda, ömurlegri útlendingastefnu, brothættu velferðarkerfi, ómarkvissri byggðastefnu, vafasömum embættisveitingum og metnaðarleysi í loftlagsmálum,“ sagði Logi.