Sýknaður af ákæru um kynferðisbrot gegn dóttur sinni

Héraðsdómur Austurlands.
Héraðsdómur Austurlands. mbl.is/Gúna

Héraðsdómur Austurlands sýknaði í síðasta mánuði karlmann af ákæru um nauðgun og kynferðisbrot gegn dóttur sinni sem hann var sakaður um að hafa gerst brotlegur gegn á árunum 2010 til 2018. Var stúlkan þá á aldrinum 6 til 14 ára.

Farið var fram á að maðurinn yrði dæmdur til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar og að honum yrði gert að greiða dóttur sinni miskabætur að fjárhæð 4.000.000 króna, auk vaxta. Maðurinn neitaði alfarið sök og hafnaði bótakröfu.

Samkvæmt dómi héraðsdóms tókst ákæruvaldinu ekki að færa fram lögfulla sönnun um sök mannsins og var hann því sýknaður.

Meint brot hafi farið fram á heimili þeirra

Til að styðja við mál sitt vísaði ákæruvaldið til frásagnar dótturinnar auk sérfræðigagna sem aflað var af hálfu lögreglu við rannsókn málsins. 

Samkvæmt frásögn dótturinnar nýtti faðir hennar tímann þegar móðir hennar var utan heimilis vegna vinnu og þegar systkini hennar sáu ekki til, til að brjóta á henni. Segir hún brotin hafa farið fram á þáverandi heimili þeirra og í sumarhúsi.

Neitaði alfarið sök

Faðirinn neitaði alfarið sök og benti lögmaður hans m.a. á að frásögn dóttur hans hafi tekið breytingum fyrir dómi miðað við frásögn hennar hjá lögreglu. Dóttirin hafi svarað leiðandi spurningum við yfirheyrslu hjá lögreglu um meintu brotin. Þá hafi frásögn dótturinnar takmarkaða stoð í framburði annarra vitna eða af gögnum.

Þá liggi fyrir að dóttirin hafi þegar á árinu 2014 lýst brotum sem hún hafi mátt þola af hendi eldri bróður síns og hafi hún þá jafnframt lýst mikilli vanlíðan samkvæmt gögnum sérfræðinga.

Lögmaður föðurins benti jafnframt á að verknaðarlýsingin í ákæru hafi verið harla óljós, að því er varðar m.a. tíma. 

Vel hafi farið á með þeim

Samkvæmt frásögn föðurins leit hann svo á að vel hafi farið á með honum og dóttur hans í flestu. Dóttir hans hafi komið með reglubundnum hætti á heimili hans í umgengni eftir skilnað hans og eiginkonunnar árið 2015.

Þá hafi hún að auki dvalið hjá honum á sumrin og þegið boð hans um sólarlandaferð í lok árs 2019. Kvaðst hann ekki vera með skýringar á alvarlegum ásökunum dóttur hans.

Andleg vanlíðan í kjölfar viðtals við skólahjúkrunarfræðing

Í dóminum kemur fram að í sálfræðiskýrslu Barnahúss segi að stúlkan hafi m.a. verið greind með mjög alvarlega vanlíðan, kvíða og þunglyndi og hafi að auki verið með einkenni áfallastreituröskunar, sem þó hefði ekki uppfyllt greiningarskilmerki samkvæmt svonefndu DSM-IV.

Í skýrslunni kemur fram að andlegt ástand stúlkunnar hafi farið batnandi á árinu 2015 og lauk meðferð hennar í Barnahúsi þá um haustið. Á árinu 2019 var þó áformað að taka upp þráðinn að nýju vegna vaxandi andlegrar vanlíðunar stúlkunnar. Gerðist það í kjölfar viðræðna hennar við skólahjúkrunarfræðing um ætluð brot bróður hennar.

Engin gögn voru lögð fyrir dóminn um ætluð brot bróður stúlkunnar. 

Frásögnin trúverðug

Samkvæmt dómi héraðsdóms er frásögn brotaþola að áliti dómsins í aðalatriðum trúverðug, þótt tímasetning og atburðarás gætu hafa skolast til, en það sé skiljanlegt með hliðsjón af því að um mörg ætluð tilvik hafi verið að ræða sem ná yfir langt tímabil samkvæmt ákæru.

Aftur á móti hafi spurningar rannsakanda á köflum verið harla leiðandi við upphaf lögreglurannsóknar.

Þá hafi nánir fjölskyldumeðlimir stúlkunnar, móðir, tvíburabróðir og eldri systkini, aldrei orðið vör við að ákærði hefði haft í frammi kynferðislega hegðun gagnvart henni. Auk þess hafi vitnin í engu lýst grunsemdum sínum í þessa veru. Loks hafi fyrrverandi eiginkona mannsins aldrei orðið vör við að kynhneigð hans hneigðist til barna eða ungmenna, og segja rannsóknargögn lögreglu heldur ekkert til um slíkt, eða um hvatir hans að því leytinu til.

Í ljósi ofangreinds taldi dómurinn að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að færa fram lögfulla sönnun um sök föðurins. Var hann því sýknaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert