Tilkynnt um hlæjandi mann

Lögreglan heyrði hláturinn en náði ekki tali af manninum og …
Lögreglan heyrði hláturinn en náði ekki tali af manninum og lét vera að aðhafast frekar í málinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögregla var kölluð til í Skólavörðuholt laust fyrir klukkan eitt í dag vegna tilkynningar sem henni hafði borist um hlæjandi mann í Skólavörðuholtinu. Kvaðst tilkynnandi hafa heyrt stanslausan hlátur allan morguninn.

Heyrði lögregla í manninum og gat staðsett hvaðan hláturinn kom en ekkert gekk að ná til mannsins er áfram hélt að hlæja, að því er segir í dagbók lögreglu.

Ekkert var aðhafst í málinu en lögregla kveðst munu skoða það betur tilkynni fleiri um sömu háttsemi.

Sundlaugargestur stöðvaði þjóf

Lögregla sinnti 54 málum á höfuðborgarsvæðinu á milli 11.00 og 17.00m í dag og var nokkur erill með ölvað fólk og fólk undir áhrifum vímuefna.

Reiðhjóli var rænt við Skólavörðustíg rétt eftir hádegi og telur lögregla sig vita hver var að verki. 

Þá kom sundlaugargestur að manni að klippa á lás á rafhlaupahjóli við Breiðholtslaug og náði að stöðva þjófnaðinn. Þegar lögregla kom á vettvang var maðurinn á bak og burt en hún telur sig vita hver hann er og má hann búast við handtöku er til hans næst, að því er segir í dagbók lögreglu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert