Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur sett á fót tveggja milljarða króna sjóð, sem á að stuðla að auknu samstarfi íslenskra háskóla. Allt að einum milljarði verður úthlutað þegar á þessu ári og sambærilegri upphæð á hinu næsta.
Í samtali við Morgunblaðið segir ráðherra sjóðinn viðleitni til að ýta undir nýsköpun og framfarir á háskólastigi, sem sé forsenda bætts háskólanáms í landinu.
„Sumir segja að við Íslendingar séum of fámenn þjóð til að reka sjö háskóla. Ég hef því hvatt skólana til að skoða aukið samstarf sín á milli og jafnvel sameiningar,“ segir ráðherra en tekur fram að um það þurfi skólarnir sjálfir að eiga frumkvæði.
Hún segir samstarf háskóla, þvert á landshluta og rekstrarform, hafa vaxið mikið. „Ég vil sjá háskólana ganga enn lengra, enda tel ég nánast útilokað að háskólanemar hér á landi fái menntun á heimsmælikvarða nema skólarnir taki höndum saman,“ segir hún.
„Háskólarnir vinna nú þegar saman að einhverju leyti og við höfum t.d. séð mikilvæg skref í samstarfi Háskólans í Reykjavík (HR) og Háskólans á Akureyri (HA) í kennslu í tölvunarfræði á Norður- og Austurlandi,“ segir Áslaug Arna og kveðst binda miklar vonir við að sjóðurinn ýti undir enn frekara samstarf.
Sjóðurinn er nýmæli í fjárveitingum til háskóla og fyrsta skrefið í frekari breytingum á þeim.
Markmiðið er að nám og kennsla geti farið fram í fleiri en einum skóla og ekki síst horft til meistara- og doktorsnáms, þannig að stúdentar geti í auknum mæli lokið áföngum í fleiri háskólum en einum og eins að kennarar geti kennt í fleiri skólum en einum.
Vonast er eftir fjölbreytilegu samstarfi, svo sem um fjármögnun, þróun og innleiðingu sameiginlegrar rafrænnar innritunargáttar, um sameiginlega stjórnsýslu og stoðþjónustu til að minnka yfirbyggingu, og samnýtingu háskóla, stofnana og fyrirtækja á rannsóknarinnviðum.
Sjóðurinn er þegar fjármagnaður á fjárlögum, en auglýst verður eftir umsóknum um styrki úr honum á næstu vikum.