Verðið og veðrið tryggir rétta ferðamenn

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ísland er aldrei land sem getur keppt í veðri,“ sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á Ferðaþjónustudeginum 2022 í Hörpu. Hann sagði kostinn við dýran bjór og enga sól vera þann að við sleppum hér á landi við versta hluta ferðaþjónustunnar sem er á sólströndum. Þeir sem komi hingað séu tilbúnir að eyða peningum fyrir gæði en það tákni þó ekki að rýja eigi þá á skinn.

Ásgeir og  Bjarni Bene­dikts­son fjár­mála- og efna­hags­ráðherra rýndu í stöðu og sam­spil ferðaþjón­ustu við aðra þætti efna­hags­lífs­ins í kjöl­far heims­far­ald­urs og í ljósi áskor­ana í rík­is­fjár­mál­um á Ferðaþjónustudeginum fyrr í dag.

Uppfæra þarf vinnumarkaðsmódelið

Í pallborðsumræðunum sagði Bjarni að uppfæra þyrfti íslenska vinnumarkaðsmódelið í samræmi við hvernig hagkerfið er að breytast og hvaða þarfir atvinnulífið hefur. Átti hann þá við módelið sem hugsar vinnutíma í dagvinnu og yfirvinnu sem henti kannski ekki grein þar sem menn þurfa að vera á vaktinni allan sólarhringinn.

„Þannig að þegar menn eru til dæmis að laða til sín ungt fólk sem er í skóla og vill koma í hlutastarf að þá kemur það alltaf inn á yfirvinnutíma þó það sé vinna fyrsta klukkutímann í vikunni og þetta held ég að sé ekki mjög hagstætt fyrir ferðaþjóstuna almennt hvernig íslenski vinnumarkaðurinn hefur túlkað réttindi og skyldur á vinnumarkaði á dálítið gamla mátann.“

Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar sem stýrði umræðunum sagðist sammála því og uppskar Bjarni lófatak fyrir.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bætt lífskjör allra í landinu

Þá talaði Bjarni um ferðaþjónustuna sem mikilvæga stoð í hagkerfinu sem muni getað fjölgað tækifærum á Íslandi og treyst hagkerfið til lengri tíma og að hún væri stoð sem er komin til að vera.

Ásgeir benti þá á að það væri auk þess ljóst að gengi krónunnar væri 10-15% lægra ef við værum ekki með þessa miklu ferðaþjónustu í landinu.

„Þannig útfrá því hefur ferðaþjónustan að einhverju leyti bætt lífskjör allra í landinu því gengið er hærra en ella. Það sem hefur skipt mestu máli fyrir okkur er að við erum svo lítið kerfi að bara það að fá fleira fólk til að vera hérna það er ábati,“ sagði Ásgeir.

Hann bætti við að hið óbeina skattkerfi á Íslandi er að einhverju leyti gírað inn á ferðamenn sem borga vask þegar þeir versla í búðum, áfengisskatt þegar þeir kaupa áfengi og svo framvegis. Hann benti þó á að það sem væri erfiðara fyrir okkur væri að innviðir í þessu landi væru ekki beinlínis hannaðir fyrir þessa notendur.

Frá pallborðsumræðunum í dag.
Frá pallborðsumræðunum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jafnmikil verðbólga hér og úti

Þegar Ásgeir var beðinn að líta fram á við sagði hann að það sem væri kannski sérstakt við ástandið í dag er að það er jafnmikil verðbólga á Íslandi og úti í heimi.

„Þannig að ég held að þrátt fyrir verðbólguna sé greinin samt að fara að halda samkeppnishæfni,“ sagði Ásgeir og benti á að hann teldi að einhverjir hefðu farið úr ferðaþjónustunni en sá hópur sem sé eftir sé væntanlega harðkjarna í því sem hann ætlar að gera.

„Við erum að fara að halda stöðugleika, hvað sem verðbólgan verður þá er gengið að fara að vera tiltölulega stöðugt. Gengið er ekki að hækka því allar aðrar þjóðir eru með verðbólgu.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert