Meðalbiðtími barna eftir því að komast að hjá sálfræðingi hjá heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu eru 168 dagar og eru alls 618 börn á bið eftir slíkri þjónustu. Þetta kemur fram í tilkynningu Umboðsmanns barna en hann hefur nýlega staðið fyrir upplýsingaöflun um fjölda barna sem bíða eftir þjónustu hjá ýmsum aðilum.
Þar kemur einnig fram að meðalbiðtími eftir þjónustu á göngudeild, transteymi og átröskunarteymi Barna- og unglingageðdeildar LSH hefur styst, ef bornar eru saman upplýsingar frá þessu ári og lok síðasta árs.
Þá hefur fjöldi barna (0-18 ára) sem bíða eftir þverfaglegri greiningu hjá Ráðgjafar og greiningarstöð, aukist en tilvísanir til stofnunarinnar voru óvenju margar á seinasta ári.
Meðalbiðtími barna á aldrinum 6 til 18 ára, eftir þverfaglegu greiningunni aukist úr 12 til 14 mánuðum í 15 mánuði. Aftur á móti hefur meðalbiðtími styst úr 19 mánuðum í 16,2 mánuði á sviði barna á aldrinum 0 til 5 ára.
Samtals eru 393 börn á bið eftir þverfaglegri greiningu.
Meðalbiðtími eftir ADHD greiningu hjá Geðheilsumiðstöð barna (áður Þroska- og hegðunarstöð) er enn sá sami, eða 12 til 14 mánuðir en fjöldi barna á bið hefur aukist úr 738 í 830.
Þá er bið eftir einhverfugreiningu 22 – 24 mánuðir að meðaltali.
Meðalbiðtími barna eftir þjónustu frá Heilsuskóla Barnaspítalans er 17 mánuðir eins og stendur og eru 110 börn á biðlista.
Heilsuskólinn aðstoðar börn og fjölskyldur þeirra sem eru 2,5 staðalfrávikum fyrir ofan meðalkúrfu í BMI eða börn sem hafa verið með mikla þyngdaraukningu á stuttum tíma. Í Heilsuskólanum eru fjölskyldum kenndar aðferðir til að takast á við þyngdarstjórnun og viðhalda breytingum ásamt því að bæta lífsgæði til lengri tíma.
Sjúkratryggingar Íslands gerðu nýverið úttekt á stöðu barna á biðlistum hjá talmeinafræðingum af beiðni heilbrigðisráðuneytisins. Slíkir biðlistar eru ekki samræmdir og því erfitt að meta raunverulega stöðu hverju sinni, segir í tilkynningunni.
Alls voru 3.701 barn skráð á biðlista hjá talmeinafræðingum í desember 2021. Þar af voru 947 skráð á fleiri en einum stað. Höfðu 30% barna beðið í 0 til 6 mánuði en um 11% höfðu verið á biðlista lengur en 2 ár.