2.536 íbúðir í byggingu í Reykjavík

Gert er ráð fyrir að lokið verði við 750 íbúðir …
Gert er ráð fyrir að lokið verði við 750 íbúðir í Reykjavík á seinni hluta þessa árs. mbl.is/Ómar Óskarsson

2.536 íbúðir eru nú í byggingu í Reykjavík að því er kemur fram í nýrri samantekt um uppbyggingu húsnæðis í borginni fyrri hluta ársins og fjölgaði þeim lítillega frá síðustu ársfjórðungssamantekt.

Á fyrstu sex mánuðum ársins var lokið við byggingu 532 íbúða og var rúmur helmingur þeirra á vegum húsnæðisfélaga eða undir merkjum hagkvæms húsnæðis.

Segir í tilkynningu að byggt á upplýsingum framkvæmdaaðila um áætluð verklok er gert ráð fyrir að lokið verði við 750 íbúðir á seinni hluta þessa árs.

Heildarfjöldi nýrra íbúða í ár yrði því 1.282 talsins en það er svipað og í fyrra þegar 1.252 íbúðir voru skráðar fullbúnar í fasteignaskrá hjá Þjóðskrá Íslands. 

Reykvíkingum fjölgaði um 1.383

Þá kemur fram að Reykvíkingum hafi fjölgað um 1.383 íbúa á fyrri hluta ársins og voru þeir 137.083 þann 1. júlí. Fjölgunin í Reykjavík er svipuð þeim fjölda og bjó í sveitarfélaginu Vogum á sama tíma.  

Auk íbúða í byggingu eru 8.600 íbúðir á þróunarsvæðum, 6.815 íbúðir í skipulagsferli, 5.714 í samþykktu deiliskipulagi og 2.536 á framkvæmdastigi. Það gera þá rúmlega 23.000 íbúðir en í dag eru um 58.000 íbúðir í Reykjavík.

Íbúðir í byggingu eru taldar upp í samantektinni og finnast þær víða um borgina. Má þar nefna Héðinsreit, Steindórsreit, Vogabyggð, Bryggjuhverfi, Gufunes, Úlfarsárdal, Kirkjusand, Hlíðarenda, Hraunbæ, Grensásveg, Sogaveg og einnig kemur Hótel Saga ný inn á listann, en henni er verið að breyta í íbúðarhúsnæði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert