Embætti héraðssaksóknara hefur ákært karlmann fyrir tilraun til að drepa tvo samstarfsfélaga sína er þeir voru við vinnu á Seltjarnarnesi 17. júní. Kom sá sem er ákærður aftan að samstarfsfélögum sínum og sló þá aftan frá í höfuðið með klaufhamri og annan einnig með jarðhaka bæði í höfuð og búk.
Samkvæmt ákæru málsins er árásinni á fyrri samstarfsfélagann lýst þannig að hinn ákærði hafi komið aftan að honum þar sem maðurinn sat á jörðinni. Sló hann samstarfsfélaga sinn ítrekað með klaufhamri og jarðhaka, í höfuð og búk, með þeim afleiðingum að hann þríhöfuðkúpubrotnaði. Meðal annars fékk hann ávala 14 sinnum 8 mm dæld á hvirfilbeini.
Einnig flísaðist úr innanverðri höfuðkúpunni hjá þeim sem fyrir árásinni varð og þá brotnaði einnig rifbein auk annarra áverka.
Varðandi árásina á hinn manninn segir að hann hafi fyrirvaralaust slegið þann samstarfsfélaga sinn með klaufhamri í höfuð, einnig aftan á hvirfilinn.
Fer fyrri samstarfsfélaginn fram á 5 milljónir í miska- og skaðabætur og sá síðari gerir kröfu um 3 milljónir í bætur.
Samkvæmt fréttum frá því að árásin átti sér stað var lögreglan kölluð til á ellefta tímanum 17. júní eftir að til átaka kom milli starfsmanna í byggingarvinnu, en árásarmaðurinn var handtekinn á vettvangi og hefur síðan setið í gæsluvarðhaldi. Sögðu vitni að blóð hafi fossað úr höfði annars þeirra sem fyrir árásinni varð, en aðrir starfsmenn á vettvangi náðu að yfirbuga árásarmanninn þar til lögregla kom á vettvang.