Ásakanirnar beinist að einhverjum öðrum

Brynjólfur Ingvarsson.
Brynjólfur Ingvarsson. mbl.is/Sigurður Bogi

Brynjólfur Ingvarsson, oddviti Flokks fólksins á Akureyri, segist telja að ásakanir Málfríðar Þórðardóttur, Hannesínu Scheving og Tinnu Guðmundsdóttur, um kynferðislegt áreiti og óviðeigandi framkomu, beinist að einhverjum öðrum innan Flokks fólksins en honum sjálfum og Jóni Hjaltasyni, þriðja manni á framboðslista.

Spurður hvern konurnar hafi þá átt við í yfirlýsingu sinni segist Brynjólfur ekki geta rætt það í síma.

„Það var ágreiningur en hann er mjög flókinn, of flókinn til þess að ég geti útskýrt hann í svona símtali,“ segir hann.

Vísaði til deilna að undanförnu

Konurnar þrjár eru allar efstu konur á lista Flokks fólksins á Akureyri. Þær lýsa í yfirlýsingu, sem gefin var út í fyrradag, reynslu sinni af samskiptum við „þessa ónefndu karlaforystu og aðstoðarmenn þeirra frá því snemma í vor“.

Jón Hjaltason sagði í samtali við mbl.is í gær að ljóst væri að þær ættu við hann og Brynjólf í þessu máli og vísaði til deilna undanfarna daga og vikur sem snúa að því hvort Brynjólfur færi í veikindaleyfi eða ekki sökum heilsubrests.

Ekki unnið sér neitt til saka

Jón sagði þá að hann og Brynjólfur myndu fara fram á lögreglurannsókn á ásökunum. Spurður hvort þeir Jón væru búnir að leggja fram kæru svaraði Brynjólfur neitandi.

„Við erum að bræða það með okkur, við Jón Hjaltason, hvort það er skref sem leiði til einhverrar niðurstöðu en við erum ekki búnir að ákveða okkur,“ segir Brynjólfur. Hann bætir þá við, eins og hann hefur nefnt áður, að þeir Jón hafi ekki unnið sér neitt til saka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert