Átta hjólreiðamenn slösuðust

Nokkuð var um að hjólreiðamenn á rafmagnshlaupahjólum slösuðust í síðustu …
Nokkuð var um að hjólreiðamenn á rafmagnshlaupahjólum slösuðust í síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í síðustu viku, dagana 4.–10. september, slösuðust níu vegfarendur í jafnmörgum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Átta þeirra voru á rafmagnshlaupahjóli eða reiðhjóli.

Í einu þeirra, sem átti sér stað mánudaginn 5. september, var bifreið ekið á hjólreiðamann á rafmagnshlaupahjóli á gangbraut við Suðurlandsbraut við Hilton Reykjavík Nordica.

Segir í tilkynningu á vef lögreglunnar að ökumaðurinn hafi farið af vettvangi án þess að huga að þeim sem ekið var á en að hann hafi fundist síðar og hafi þá verið miður sín yfir atvikinu. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Sama dag var bifreið ekið á hjólreiðamann á rafmagnshlaupahjóli á gatnamótum Bitruháls og Bæjarháls. Sá var einnig fluttur á slysadeild en hann hafði ekki verið með öryggishjálm.

Á tímabilinu þurftu einnig fimm einstaklingar á rafmagnshlaupahjólum að fara á slysadeild eftir að hafa fallið af hlaupahjólum sínum. Einn þeirra var ölvaður. Þá var einn hjólreiðamaður, sem féll af reiðhjóli, fluttur á slysadeild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert