Bjarni segir að réttlætið hafi sigrað

Bjarni Ármannsson.
Bjarni Ármannsson.

Bjarni Ármannsson, forstjóri Icelandic Seafood, fagnar dómi Hæstaréttar sem féll í gær og því að réttlætið hafi sigrað að lokum.

Í tilkynningu, sem Bjarni sendir á fjölmiðla, segir hann að með úrskurðinum sé sakaskrá hans loksins hreinsuð. Dómurinn hafi staðfest að honum hafi verið gerð tvöföld refsing, fyrst í skattamáli sem gert var upp að fullu og síðan í refsimáli vegna sömu mistaka við gerð skattframtala.

Bjarni bendir á að mannréttindadómstóll Evrópu hafi úrskurðað að sú málsmeðferð gengi í berhögg við mannréttindasáttmála Evrópu og að Hæstiréttur hafi nú staðfest það.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að málinu skuli vísað frá héraðsdómi á þeim grundvelli að efnismeðferð og sakfelling myndi brjóta í bága við réttinn um að vera ekki saksóttur eða refsað tvívegis fyrir sama mál.

Þótt Bjarni fagni niðurstöðunni segir hann að það hljóti hins vegar að „teljast umhugsunarefni að opinbera kerfið hafi með öllum tiltækum ráðum eytt meira en áratug í að afneita hinu augljósa“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert