Fjárveitingar einar og sér ekki lausnin

Runólfur Pálsson segist ekki hafa búist við auknum fjárveitingum í …
Runólfur Pálsson segist ekki hafa búist við auknum fjárveitingum í fjárlagafrumvarpi sem kynnt var á mánudaginn. mbl.is/Arnþór

„Fólki hefur fjölgað mjög mikið á Reykjavíkursvæðinu á undanförnum 20 árum en á sama tíma hefur skipulag bráðaþjónustunnar lítið þróast,“ segir Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans, í samtali við mbl.is.

„Mér finnst ástæða til þess að skapa fjölbreyttari úrræði þar sem fólk getur fengið þjónustu við fremur vægum vandamálum sem þurfa samt úrlausnar við án tafar.“

Runólfur segir það ekki vera markvissa leið við vanda heilbrigðiskerfisins að auka fjárveitingar til stofnana án þess að fyrir liggi vel skilgreind aðgerðaráætlun um nýtingu fjármunanna. 

Nýtt fjárlagafrumvarp var kynnt á mánudaginn en þar er ekki gert ráð fyrir sérstakri aukningu fjármuna til reksturs Landspítala.

„Ég get ekki sagt að ég hefði búist við auknum fjárveitingum í frumvarpinu en þessi vandamál eru brýn og það þarf að bregðast við þeim með markvissum hætti. Það þarf aðgerðaráætlun sem fyrst því þetta er farið að sliga heilbrigðisþjónustuna og við ráðum orðið illa við viðfangsefnin,“ segir Runólfur.

Fjármögnun spítalans breytist um áramótin

„Frá næstu áramótum verður starfsemi Landspítala fjármögnuð að hluta í samræmi við veitta þjónustu og mun það væntanlega gera rekstur spítalans markvissari og hafa í för með sér betri nýtingu fjármuna í framtíðinni.“ 

„Mannekla er stærsti vandinn og við honum verður að bregðast með öllum tiltækum ráðum. Það er oft á brattann að sækja í þessum rekstri og það verður þannig áfram næsta ár, svo sannarlega,“ segir Runólfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka