Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, segir fyrirhugaðar skattahækkanir á rafbíla munu hafa mikil áhrif á eftirspurn.
„Þegar svona breytingum er slengt fram með litlum fyrirvara skapast einhvers konar gullgrafaratilfinning hjá mörgum. Það er gríðarleg eftirspurn eftir rafbílum í augnablikinu og endursölumarkaðurinn hefur tekið kipp. Það er lítið framboð og verðskrið og ekki ólíklegt að þessu innflutningsþaki verði náð fyrr en seinna,“ segir Runólfur og vísar til þess að niðurfelling gjalda verði aflögð þegar skráðir hafa verið 20 þúsund rafbílar.
Gjaldtaka af rafbílum hefur verið í umræðunni eftir að fjárlagafrumvarp var kynnt í byrjun vikunnar.
Friðbert Friðbertsson forstjóri Heklu segir fyrirhugaðar breytingar skapa óvissu fyrir kaupendur jafnt sem innflytjendur rafbíla. Að óbreyttu muni þeir sem verða röngum megin tímamarkanna þurfa að greiða 2-3 milljónum hærra verð.
Samtímis þessum vendingum fer fram mikil uppbygging á innviðum fyrir rafbíla.
Olís og Ísorka hafa undirritað samstarfssamning um uppbyggingu á neti hraðhleðslustöðva sem staðsettar verða á afgreiðslustöðvum Olís. Munu þær m.a. þjóna ferðamönnum, innlendum sem erlendum.
Fram kemur á viðskiptasíðu Morgunblaðsins í dag að stefnt sé að því að setja upp 20 stöðvar innan tveggja ára. Rætt er við Sigurð Ástgeirsson framkvæmdastjóra Ísorku, sem segir fyrirtækið reka rúmlega tvö þúsund hleðslustöðvar fyrir rafbíla. Hreinir rafbílar eru nú söluhæstir nýrra fólksbíla.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.