„Gríðarlega öflugar“ sprengjur

Viðbúnaðurinn var mikill á Selfossi.
Viðbúnaðurinn var mikill á Selfossi. mbl.is/Sigmundur

Lögreglan á Suðurlandi vill ekki tjá sig um hvort einhver hafi verið handtekinn eða sé grunaður vegna heimatilbúnu sprengjunnar sem fannst á Selfossi í morgun.

Garðar Már Garðarsson aðalvarðstjóri segir að tilkynning hafi borist klukkan 9:47 í morgun um mögulega sprengju á gatnamótum Tryggvagötu og Engjavegar. Lögreglan fór á staðinn og sá strax að hluturinn passaði við lýsingarnar á þeim sprengjum sem hafa verið búnar til í bænum að undanförnu.

Frá vettvangi á Selfossi.
Frá vettvangi á Selfossi. mbl.is/Sigmundur

Óttast var að sprengjan gæti sprungið hvenær sem væri. Þess vegna var ákveðið að loka svæðinu og kalla til sprengjusveit ríkislögreglustjóra. Eftir að sveitin sendi róbóta á svæðið og skoðaði hlutinn betur var ekki talið óhætt að hreyfa við honum. Honum var því eytt á staðnum með öflugri vatnsbyssu klukkan 11:25 í morgun.

Hálftíma síðar var búið að hreinsa svæðið og tryggja vettvanginn.

Aðspurður segir Garðar Már að eðlilega hafi gripið um sig hræðsla. Grunnskóli sé þarna skammt frá og málið hafi verið unnið í samstarfi við skólastjórnendur. Börnum var haldið inni í skólanum á meðan aðgerðin fór fram og svæðið var girt af til að enginn færi þangað inn.

mbl.is/Sigmundur

Hann segir sprengjur sem þessar gríðarlega hættulegar. Þær geti sprungið hvenær sem er. Eftir að búið sé að blanda ákveðnum efnum saman breytist þau í tímasprengju.

„Við sjáum á þessum sprungnu sprengjum, sem okkur hefur verið vísað á, að þær hafa verið gríðarlega öflugar,” segir Garðar Már og bendir á að ef þær springi í höndunum á fólki geti þær meðal annars valdi beinbrotum. Þar fyrir utan getur ætandi vökvinn sem í þeim er valdið gríðarlegum skaða á augum og húð.

Hann segir málið í morgun vera til rannsóknar ásamt fleiri sams konar málum. „Við vonum að þessi bylgja fari að ganga yfir.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert