Hátt hlutfall bólusettra ver Ísland fyrir lömunarveiki

Guðrún Aspelund, sóttvarnalæknir.
Guðrún Aspelund, sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mænusótt er ekki landlæg nema á fáum stöðum í heiminum, en það getur alltaf gerst að einhver beri þetta með sér. Svo er enn notað þetta lifandi bóluefni í nokkrum löndum og þannig kom þetta til New York,“ segir Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir.

Rík­is­stjór­inn í New York-ríki í Banda­ríkj­un­um lýsti yfir neyðarástandi á dögunum vegna út­breiðslu mænusóttar eða lömunarveiki.

Aðeins eitt tilfelli hefur verið staðfest þar hingað til, fyrsta tilfellið í tæpan áratug, en veiran hefur greinst í sýn­um sem tek­in hafa verið úr skólp­vatni í New York-borg og fjór­um sýsl­um þar í kring.

Góð þátttaka í bólusetningum hér á landi

Maðurinn sem greindist með mænusótt í New York í júlí hafði fengið svokallað lifandi bóluefni sem tekið er inn munnlega en slíkt tíðkast almennt ekki á Vesturlöndum.

„Það sem gerðist í New York-ríki er að einstaklingur kom þangað sem hefur fengið þetta lifandi bóluefni, en veikluð veira sjúkdómsins er í því. Ferðamaðurinn fór í samfélag í Rockland-sýslu þar sem þátttaka í bólusetningu er léleg og þannig kemst þetta inn þar,“ segir Guðrún.

Spurð hvort við þurfum að hafa áhyggjur af útbreiðslu sjúkdómsins hér á Íslandi segir Guðrún að góð þátttaka í bólusetningu komi almennt í veg fyrir það.

„Hér eru gefnar sprautur, sem sagt ekki þetta lifandi bóluefni, en það er veikluð veira í því og hún getur tekið sér bólfestu í löndum þar sem hlutfall bólusettra er lágt.

„Hér er yfir 90% þátttaka, en það þarf að vera til að hafa hjarðónæmi fyrir þessu og þannig er hægt að halda þessu í burtu. Bóluefnið er mjög gott og bólusettir einstaklingar eru mjög vel varðir. Ef að þátttakan hjá okkur færi niður þyrftum við fyrst að hafa áhyggjur, og það er það einmitt sem Bandaríkjamenn hafa áhyggjur af,“ bætir Guðrún við.

Gefnar eru fjórar bólusetningar við lömunarveiki hér á landi. Börn fá þrjár en svo fá unglingar örvunarskammt í kringum 14 ára aldur.

Covid-tilfellum að fækka

Spurð út í tíðni Covid-19 smita að undanförnu segir Guðrún að tilfellum fari fækkandi hér á landi. „Við teljum að það sé raunveruleg fækkun, þó að það séu færri sýnatökur núna og því erfiðra að meta ástandið, en það hefur líka verið fækkun á spítölunum.“

„Það bendir allt til þess að það sé minni dreifing, þá í samræmi við það sem er að gerast í Evrópu og í heiminum, samhliða fækkun á veikindum og dauðsföllum af völdum Covid-19,“ segir Guðrún.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) sagði í gær að við hefðum aldrei verið í betri stöðu til að binda enda á faraldurinn, en tilfelli á heimsvísu hafa ekki verið færri síðan í mars 2020.

Guðrún segir að þá hafa komið spár um það að tilfellum gæti fjölgað aftur í vetur. Guðrún hvetur jafnframt alla þá sem eru í áhættuhópum að fara í flensusprautu í haust þegar nýtt flensutímabil byrjar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert