Ísland tekur skref í átt að Eurocontrol

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu og Eamonn Brennan, forstjóri Eurocontrol.
Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu og Eamonn Brennan, forstjóri Eurocontrol. Ljósmynd/Aðsend

Aðlögunarsamningur Íslands og Eurocontrol, sem markar áform Íslands um að gerast aðili að stofnuninni frá 1. janúar 2025, var undirritaður í dag. 

Samningurinn var undirritaður í dag af Jóni Gunnari Jónssyni, forstjóra Samgöngustofu og Eamonn Brennan, forstjóra Eurocontol. Samkvæmt skilmálum hans á Ísland sæti áheyrnarfulltrúa og getur tekið þátt í verkefnum og starfsemi Eurocontrol að sama marki og aðildarríki, að því er segir í tilkynningu Samgöngustofu.  

Nokkrir fulltrúar Samgöngustofu, Eurocontrol, innviðaráðuneytisins og Isavia sem komu að …
Nokkrir fulltrúar Samgöngustofu, Eurocontrol, innviðaráðuneytisins og Isavia sem komu að undirbúningi þessa áfanga. Ljósmynd/Aðsend

Þá er helsti ávinningur aðildar full þátttaka í miðlægri flæðisstjórnun flugumferðar fyrir samevrópska loftrýmið og samræmdri krísustjórnun vegna t.d. eldgosa og heimsfaraldra. Henni fylgir einnig aðgangur að kerfum, gagnabönkum, greiningarvinnu, tæknilausnum, þjálfun og stuðningi við ýmsa þætti flugmála sem snúa að rekstrarstjórnun flugumferðar, rekstri flugvalla, skilvirkni, öryggi og netvernd svo nokkuð sé nefnt.

Jón Gunnar kvaðst ánægður með jákvætt samstarf við Eurocontrol á undanförnum árum og að með undirskrift samningsins hafi verið stigið mikilvæt skref.  Þá sé flug og flugleiðsaga einstaklega mikilvæg til grundvallar efnahags og velmegunar þjóðarinnar vegna landfræðilegrar legu Íslands.

Emonn Brenan var jafnframt ánægður með undirritun þessa samnings þar sem Ísland er vaxandi áfangastaður í Evrópu og telur það mikilvægt skref í átt að samþættingu Íslands sem 42. aðildarríkis Eurocontrol.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert